Hitabeltisstormurinn Barry kann að ná styrk fellibyls í kvöld eða snemma í fyrramálið á þeim tíma sem hann nálgast strendur Louisiana-ríkis, samkvæmt upplýsingum frá fellibyljamiðstöðinni í Miami, National Hurricane Center (NHC).
Barry er nú úti á Mexíkóflóa, um 220 km suðaustur af Morgan City í Louisiana, og er vindhraðinn 85 km/klst. Búist er við að hann gangi á land vestur af New Orleans, en þar hefur þrumuveður og flóð vegna úrhellisrigninga þegar gert nokkurn usla.
„Það má búast við hættulegum sjávarflóðum, úrhellisrigningu og miklum vindi,“ hefur Reuters eftir NHC. Þá hafa yfirvöld í Louisiana varað við að vatnshæð árinnar Mississippi geti hækkað allt að sex metra og áin verið hættulega nærri því að rjúfa þá bakka sem nú verja New Orleans.
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir og hafa íbúar á þeim landsvæðum sem liggja lágt verið beðnir um að yfirgefa heimili sín.
CNN segir Barry vera fyrsta hitabeltisstorminn sem Bandaríkjamönnum stafar hætta af það sem af er ári.