Rodrigo Duterte forseti Filippseyja segir að íslensk stjórnvöld og ríkisstjórnir þeirra landa sem studdu ályktun Íslands um ítarlega úttekt mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna á stríði ríkisstjórnar hans gegn fíkniefnum séu „hálfvitar“. Forsetinn kallar íslensk stjórnvöld „hórusyni“, sem geti ekki skilið vandamálin sem séu til staðar á Filippseyjum.
Ummælin lét Duterte falla í ræðu sem hann hélt fyrir fangaverði í Filippseyjum í dag, en þetta er í fyrsta sinn sem hann tjáir sig um eftir að ályktun Íslands var samþykkt í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í gær með naumum meirihluta atkvæða.
„Þessir hórusynir geta ekki skilið að við eigum við vandamál að etja,“ sagði forsetinn í dag og virðist hafa verið að beina orðum sínum sérstaklega að íslenskum stjórnvöldum.
„Ísland, hver eru vandamál Íslands? Bara ís. Það er vandamálið ykkar. Þið eruð með of mikið af ís og það er enginn munur á degi og nótt þarna,“ sagði forsetinn.
„Svo þið getið skilið af hverju það eru engir glæpir. Það eru engir lögreglumenn heldur. Þau bara borða ís. Þessir hálfvitar, þeir geta ekki skilið samfélagsleg, efnahagsleg eða stjórnmálaleg vandamál Filippseyja,“ sagði Duterte.
Áður en að ályktun Íslands var samþykkt hafði Duterte kallað hana klikkaða, en hann útilokaði þó ekki að rannsakendum Sameinuðu þjóðanna yrði hleypt til landsins ef hún yrði samþykkt. Á það minntist hann ekkert í ræðu sinni í dag.
Ræðu forsetans má sjá hér að neðan.