Emmanuel Macron Frakklandsforseti tilkynnti í dag að hann hefði samþykkt stofnun sérstakrar geimdeildar innan franska flughersins, að sögn til að bæta varnargetu franska hersins.
Fetar Macron þar með í fótspor kollega síns, Donalds Trump sem hefur skipað varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna að gera slíkt hið sama.
Macron ávarpaði hermenn í dag, degi fyrir bastilludaginn, þjóðhátíðardag Frakka, og sagði hann áformunum ætlað að auka varnir franskra gervihnatta. Enn á þó eftir að tilkynna um fjárfestingar sem í verður ráðist í þessu skyni.
Geimdeild verður stofnuð innan flughersins í september og fær hann þá nafnið flug- og geimher. Fjárlög franska hersins fyrir árinu 2019-2025 hafa eyrnamerkt 3,6 milljörðum evra. um 509 milljörðum króna, til nýrra fjárfestinga og endurnýjunar á frönskum gervihnöttum.
Að því er fréttastofan Reuters hefur eftir fjórum ónafngreindum erindrekum innan Atlantshafsbandalagsins, stefnir bandalagið að því að viðurkenna geiminn sem vettvang fyrir hernað á þessu ári.
Alþjóðlegur geimsáttmáli, sem undirritaður var 1966, segir að geimurinn sé sameiginlegt svæði allra ríkja og ekkert ríki megi slá eign sinni á hlut hans. Einungis megi nota himintungl í friðsamlegum tilgangi og líta skuli á geimfara sem erindreka mannkyns alls, svo fáein atriði séu nefnd.