Karlmaður á þrítugsaldri hefur játað á sig morðið á bandaríska sameindalíffræðingnum Suzanne Eaton. Lík hennar fannst í síðustu viku í neðanjarðarbyrgi á Krít, sem síðast var notað af nasistum meðan á seinni heimsstyrjöldinni stóð.
Maðurinn, sem býr á grísku eyjunni, hefur verið handtekinn.
Eaton ferðaðist til Krítar til að vera viðstödd ráðstefnu. Samstarfsfólk tilkynnti um hvarf hennar 2. júlí þegar hún skilaði sér ekki til baka eftir að hafa farið út að skokka.
Lík hennar fannst sex dögum eftir að tilkynnt var um hvarfið. Talið er að Eaton hafi kafnað en lögregla greindi frá því að auk þess hefðu stungusár verið á líkinu.
Árásarmaðurinn er grunaður um að hafa ætlað að misnota Eaton kynferðislega.
Lögregla rannsakar hvar Eaton var myrt en talið er að hún hafi verið flutt inn í byrgið eftir að hún lést.