„Þær gera ekki annað en að kvarta“

Donald Trump ræddi við fjölmiðlafólk í dag.
Donald Trump ræddi við fjölmiðlafólk í dag. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að ef fjórar þingkonur Demókrataflokksins, sem hann hvatti til „að fara heim“ í röð færsla á Twitter í gær, séu ekki ánægðar í landinu geti þær yfirgefið það. 

„Þær gera ekki annað en að kvarta,“ sagði Trump í Hvíta húsinu í dag.

„Þetta er fólk sem hatar landið okkar,“ sagði Trump.

„Ef þú ert ekki ánægð eða ánægður hér þá geturðu farið. Ef þær vilja fara þá geta þær það,“ bætti forsetinn við.

Þingkonurnar fjórar, sem Trump hvatti til heimferðar við í færslum sínum á Twitter, eru þær Al­ex­andria Ocasio-Cortez, Rashida Tlaib, Ay­anna Pressley og Ilh­an Omar. Þrjár fyrstnefndu fæddust allar í Bandaríkjunum en sú síðastnefnda fluttist þangað sem barn.

Trump spurði í gær hvers vegna þingkonurnar færu ekki til síns heima og hjálpuðu til við að laga til í gjörspilltum löndunum þaðan sem þær kæmu. 

Forsetinn sakaði einnig þingkonurnar um að „elska“ óvini Bandaríkjanna og nefndi Al-Qaeda í því samhengi.

Fjölmargir hafa gagnrýnt Twitter-færslur forsetans harðlega í dag, þeirra á meðal þingmenn Demókrataflokksins og evrópskir stjórnmálamenn. 

Þingkonurnar fjórar hafa fordæmt ummæli forsetans. Ocasio-Cortez sagði meðal annars að Trump gæti ekki ímyndað sér Bandaríkin þar sem fólk eins og hún væru hluti af þjóðinni. Omar sagði forsetann ala á hvítri þjóðernishyggju.

„Þú ert reiður yfir því að fólk eins og við þjónar á þingi og berst gegn hatursfullum áróðri þínum,“ skrifaði Omar á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert