Varir kyrrsetningin fram á næsta ár?

Ekki er enn vitað hvenær 737 MAX-flugvélarnar hefja sig aftur …
Ekki er enn vitað hvenær 737 MAX-flugvélarnar hefja sig aftur til flugs. AFP

Ólíklegt er að 737 MAX-flugvélar Boeing muni hefja sig til flugs á þessu ári vegna þess að lengri tíma mun taka að vinna að úr­bót­um sem full­nægja ör­ygg­is­sjón­ar­miðum en gert var ráð fyrir.

The Wall Street Journal grein­ir frá þessu.

Þar kemur fram að engin dagsetning hafi verið gefin út um það hvenær MAX-vélarnar fái aftur leyfi til flugs. 

Þær hafa verið kyrrsettar frá því í mars í kjölfar tveggja flugslysa þar sem 346 manns fórust. Flug­vél­arn­ar sem hröpuðu voru báðar af gerðinni MAX 737. Fyrra slysið varð í Indó­nes­íu í októ­ber og það síðara í Eþíóp­íu í mars.

Gert er ráð fyrir því að MAX-vélarnar komist á loft í janúar. Heimildir WSJ herma að uppfærsla tölvukerfa gangi seinlega fyrir sig sem og þjálfun flugmanna.

Eins og áður hef­ur komið fram vinn­ur Boeing nú að því að upp­færa svo­kallað MCAS-kerfi, en það á að koma í veg fyr­ir að flug­vél­in of­rísi. Gall­ar í því kerfi eru tald­ir ástæður slys­anna tveggja.

Flugfélög hafa gefið út tilkynningar síðustu vikur og mánuði þar sem væntanlegum flugi MAX-vélanna er frestað. Bandaríska flugfélagið American Air­lines greindi frá því um helgina að öllu flugi með áðurnefndum vélum hefði verið frestað til 2. nóvember. 

Áður hafði flugfélagið greint frá því að flugi yrði frestað til 3. september. Tilkynningin um helgina er sú fimmta þar sem American Airlines greinir frá seinkun á flugi MAX-vélanna.

Bandarísk flugmálayfirvöld segja enga tryggingu fyrir því að dagsetningin í nóvember standi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert