Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur tekið ákvörðun um að lögreglumaður í New York, sem tók mann að nafni Eric Garner hengingartaki á götu úti árið 2014 með þeim afleiðingum að hann lést, muni ekki sæta alríkisákæru vegna málsins.
Þetta var tilkynnt í dag, þegar einungis einn dagur er í að fimm ár verði liðin frá atburðinum, sem vakti upp mikla reiði í garð lögreglu. Mál Garner og fleiri svartra manna sem létust eftir viðskipti sín við lögreglu urðu kveikjan að fjöldamótmælum gegn lögregluofbeldi víða um Bandaríkin og Black Lives Matter-hreyfingunni.
Alríkissaksóknarinn Richard P. Donoghue sagði við fjölmiðla í dag að andlát Garner hefði verið hryggilegt, en að sönnunargögn málsins styðji ekki við ákæru á hendur lögreglumanninum Daniel Pantaleo.
Garner var óvopnaður, en hann hafði deilt við lögreglumenn sem sökuðu hann um að selja ólöglegar sígarettur.
„Ég get ekki andað! Ég get ekki andað“ heyrðist Garner segja þegar fimm lögreglumenn reyndu að koma á hann handjárnum. Atburðurinn var tekinn upp á myndband og má sjá á því hvernig Pantaleo tók Garner hengingartaki eftir rifrildi þeirra og hvernig Garner barðist fyrir lífi sínu.
Mál Pantaleo er enn til skoðunar hjá lögregluyfirvöldum í New York og verður það í höndum lögreglustjórans James P. O‘Neill að taka endanlega ákvörðun um hvort lögreglumanninum verði gerð einhver refsing vegna málsins, en þyngsta refsing sem hann gæti sætt úr hendi O‘Neill væri brottvikning úr starfi.
New York Times hefur eftir Gwen Carr, móður Garner, að hún og fjölskyldan muni halda áfram að berjast fyrir réttlæti í málinu, þrátt fyrir að það virðist ekki ætla að koma frá dómsmálaráðuneytinu.