Forsætið styrkt af stórfyrirtækjum

AFP

Finnsk stjórnvöld, sem fara með forsætið í ráðherraráði Evrópusambandsins fram að næstu áramótum, hafa engar fyrirætlanir um að ræða við önnur ríki sambandsins um aðkomu fyrirtækja að því að greiða hluta af kostnaði vegna forsætisins.

Þetta er haft eftir eftir talsmanni finnskra stjórnvalda á fréttavefnum Euobserver.com í dag, en ríki Evrópusambandsins skipast á að fara með forsætið í ráðherraráðinu, hvar ráðherrar í ríkisstjórnum ríkja sambandsins eiga sæti, hálft ár í senn. Fram kemur ennfremur í fréttinni að stórfyrirtæki hafi á liðnum árum í vaxandi mæli verið samþykktir sem fjárhagslegir stuðningsaðilar forsætisins í ráðherraráðinu hverju sinni.

BMW lagði fram eitt hundrað bifreiðar

Talsmaður finnskra stjórnvalda segir að Finnland hafi aðeins ákveðið að gera einn slíkan samning, við þýska bifreiðaframleiðandann BMW. Samkvæmt fréttinni leggur BMW ekki fram beinharða peninga en hafi lánað forsæti Finna um eitt hundrað bifreiðar.

AFP

Hvert ríki Evrópusambandsins, sem fer með forsætið í ráðherraráðinu, verður að ákveða fyrirkomulagið í þessum efnum sjálft er ennfremur haft eftir talsmanninum enda alfarið undir því komið. Finnsk stjórnvöld tóku við forsætinu 1. júlí af Rúmeníu.

Þingmenn kölluðu eftir meira gegnsæi

Tæplega eitt hundrað þingmenn á þingi Evrópusambandsins rituðu bréf til finnskra stjórnvalda í apríl þar sem þeir fóru fram á meira gegnsæi í þessum efnum og hvöttu þau til þess að hafna fjárhagslegum stuðningi stórfyrirtækja við forsæti þeirra.

Þingmennirnir hvöttu einnig til þess að sett yrði regla innan Evrópusambandsins þess efnis að lokað yrði á slíka aðkomu stórfyrirtækja sem mörg hver hefðu hagsmuni af því að hafa áhrif á ákvarðanatöku sambandsins. Slík aðkoma hefði skaðleg pólitísk áhrif.

Stutt af Renault, Mercedes og Coca-Cola

Rúmenía fór með forsætið í ráðherraráði Evrópusambandsins á fyrri hluta þessa árs og naut forsæti landsins fjárhagslegs stuðnings frá bifreiðaframleiðundunum Renault og Mercedes auk alþjóðlega drykkjarframleiðandanum Coca-Cola.

AFP

Frjálsu félagsamtökin Foodwatch gagnrýndu rúmensk stjórnvöld fyrir að hafa samið við Coca-Cola á sama tíma og barátta væri í gangi vegna ýmissa heilsufarstengdra vandamála og á tímum minnkandi trausts í garð stjórnmálamanna.

Ráðherraráðið veitir ekki upplýsingar

Hollenski Evrópuþingmaðurinn Dennis de Jong óskaði eftir upplýsingum frá ráðherraráðinu um það hversu háar fjárhæðir Coca-Cola hefði lagt fram til forsætis Rúmeníu og sönnunum fyrir því að þeim hafi ekki fylgt neinar óeðlilegar skuldbindingar.

De Jong fékk þau svör að ráðherraráðið gæti ekki svarað spurningum hans. Ekki væri hlutverk ráðsins að svara spurningum um málefni sem væru á ábyrgð þeirra ríkja sem færu með forsætið í því hverju sinni. Viðkomandi ríki yrði að svara spurningunum.

Orðið að reglu í stað undantekningar

Fram kemur í fréttinni að fjárhagslegur stuðningur stórfyrirtækja við forsætið í ráðherraráði Evrópusambandsins væri ekkert nýtt en hefði orðið að reglu í seinni tíð fremur en undantekningu samkvæmt samtökunum Corporate Europe Observatory.

Þannig væri fjárhagslegur stuðningur stórfyrirtækja í dag orðinn að föstum hluta af fyrirkomulaginu í kringum forsætið í ráðherraráðinu. Malta hafi boðið fyrirtækjum að styrkja forsæti sitt árið 2017 gegn ómetanlegri kynningu og samið meðal annars við BMW, flugfélagið AirMalta og hugbúnaðarframleiðandann Microsoft.

Frábært tækifæri til að auglýsa sig

Vitað er að átta ríki Evrópusambandsins að minnsta kosti hafi samið um fjárhagslegan stuðning stórfyrirtækja við forsæti sitt innan ráðherraráðsins á liðnum árum; Holland, Slóvakía, Malta, Eistland, Búlgaría, Austurríki, Rúmenía og nú Finnland.

Króatía, sem tekur við forsætinu í ráðherraráði Evrópusambandsins í byrjun næsta árs, hefur þegar hafið vinnu við að semja við stórfyrirtæki. Ráðgjafafyrirtæki hafa kynnt möguleikann fyrir fyrirtækjum á þeim forsendum að um sé að ræða frábært tækifæri til þess að auglýsa starfsemi sína og vörur innan sambandsins.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka