Nauðgað áður en hún var myrt

Suzanne Eaton var 59 ára gamall líffræðingur.
Suzanne Eaton var 59 ára gamall líffræðingur.

Suzanne Eaton, bandarískri vísindakonu sem fannst látin í neðanjarðarbyrgi nasista á Grikklandi, var nauðgað áður en hún var myrt af 27 ára gömlum karlmanni sem hefur játað sök. CNN greinir frá.

Samkvæmt lögreglu hefur maðurinn sagst hafa séð Eaton úti að hlaupa, og að með kynferðisglæp í huga hafi hann keyrt á hana með bifreið sinni í tvígang. Eaton mun hafa verið meðvitundarlaus þegar maðurinn kom henni fyrir í skotti bifreiðarinnar og fór með hana í neðanjarðarbyrgi nasista frá seinni heimsstyrjöldinni.

Þar skildi hann lík hennar svo eftir og faldi op byrgisins með trjástubbi, en ekki er vitað hvort Eaton var enn á lífi þegar maðurinn nauðgaði henni.

Hjólför við neðanjarðarbyrgið leiddu lögreglu á slóð mannsins, sem neitaði upphaflega sök og sagðist ekki hafa farið nálægt byrginu í mánuð, sem lögreglunni þótti grunsamlegt. Þá hafi farsími mannsins sent frá sér merki nærri vettvanginum daginn sem árásin átti sér stað.

Maðurinn hefur enn ekki verið nafngreindur, en að sögn lögreglu er hann giftur, tveggja barna faðir sem á land nærri neðanjarðarbyrginu. Hann þekkti Eaton ekki en hafði séð hana á hlaupum áður.

Eaton var 59 ára gömul og starfaði sem líffræðingur við Dresden-háskóla í Þýskalandi. Hún var stödd á ráðstefnu á Krít þegar hún hvarf og fannst látin viku síðar.

Frétt CNN

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert