Það var stundvíslega klukkan 21:17.40 að norskum tíma 20. júlí 1969 sem tunglfarið Eagle snerti yfirborð mánans með amerískar þjóðhetjur innanborðs sem hófu heimsóknina með frægasta mismæli 20. aldarinnar.
Norska ríkisútvarpið NRK bauð norsku þjóðinni upp á beina útsendingu af einum stærsta fréttaviðburði heimsbyggðarinnar síðan 22. nóvember 1963 í Dallas og kom svo spólunni með upptökunni samviskusamlega fyrir í myndsafni sínu. Í bili.
Þegar farið var að grennslast fyrir um örlög upptökunnar sögulegu fyrr í sumar, áður en 50 ára tunglhátíðin gengi í garð, reyndist hún horfin á braut.
„Þetta er skelfileg synd, næstum ófyrirgefanleg,“ segir Erik Tandberg í samtali við NTB-fréttastofuna sem flestir norskir fjölmiðlar hafa nú vitnað í, meira að segja NRK. Tandberg þessi er 86 ára gamall og naut þess heiðurs að vera þulur við útsendinguna. Í Noregi þetta sumarkvöld 1969 hlutu orð Tandberg ámóta athygli og starfsbróður hans Walter Cronkite á CBS-stöðinni fimm og hálfu ári áður þegar hann tilkynnti að John F. Kennedy hefði látist klukkan eitt eftir hádegi.
Petter Wallace, upplýsingafulltrúi NRK, staðfestir eyðingu tunglupptökunnar við NTB og bendir á að upptökur beinna útsendinga á sjöunda áratugnum hafi varla þekkst, myndböndin hafi kostað hvítuna úr augunum og ríkisstofnanir átt sína sultaról að herða.
„Við tókum yfir þetta [með öðru efni] á áttunda áratugnum,“ segir Wallace. „Þannig var þetta bara á þessum tíma. Þetta virkar auðvitað óskiljanlegt á okkar tímum og NRK biðst bara innilega afsökunar á að svona mikilvægur atburður hafi ekki verið varðveittur,“ segir upplýsingafulltrúinn.
Og sjaldan er ein báran stök. Tungllendingin er ekki eina upptakan sem er týnd og tröllum gefin í ranni ríkisútvarps. Ein annálaðasta beina útsending áttunda áratugarins í Noregi, EF-natta, eða EB-nóttin, aðfaranótt 26. september 1972, finnst ekki heldur. Upptakan frá þjóðaratkvæðinu um hvort Norðmenn skyldu ganga í EF, den Europeiske Fellesskap, sem Íslendingar kölluðu á þeim tíma EB eða Evrópubandalagið en heitir núna EU í Noregi og ESB á Íslandi.
Enginn veit hvar sú upptaka er sem sögð er hafa verið á pari við harðasta spennutrylli en fyrstu tölur voru rúmlega 71 prósents nei. Þvarr svo neitunarvaldið hægt og bítandi en lokatalan var engu að síður nei-megin með 53,5 prósentum og 46,5 sem kusu já. Í nóvember 1994 sögðu 52,2 prósent nei, en fyrir kraftaverk á NRK þá kosningavöku.