Ein milljón manns, þar á meðal fjöldinn allur af Íslendingum, segist ætla að mæta í áhlaup á aðstöðu flughers Bandaríkjanna í eyðimörkinni í Nevada. Tæp milljón til viðbótar segist áhugasöm.
Samsærismenn segja að þar sé að finna tækni tengda geimverum en gestir áhlaupsins eru einmitt í leit að geimverum. Viðburðurinn er kallaður Áhlaup á svæði 51: Þeir geta ekki stoppað okkur öll.
Herbúðirnar eru leynilegar en Independent greinir frá því að flugherinn hafi sent frá sér hörkulega viðvörun vegna uppátækisins.
Áhlaupið á að eiga sér stað 20. september næstkomandi en áður en það hefst hefur þátttakendum verið bent á að safnast saman. Talið er að viðburðurinn sé grín en talskona flughersins, Laura McAndrews, hefur tekið því alvarlega. McAndrews varar þátttakendur mögulegs áhlaups við því að láta til skara skríða þar sem á svæðinu sé verið að þjálfa vopnaða hermenn.
Skipuleggjendur áhlaupsins virðast ekkert óttast og segja „við getum hlaupið hraðar en byssukúlurnar þeirra. Við skulum fara og sjá geimverurnar.“
Samsærismenn hafa lengi talið að bandarísk stjórnvöld feli leynilegar upplýsingar um geimverur og fljúgandi furðuhluti á svæði 51 og að þar séu líkamsleifar geimvera og fljúgandi furðuhlutir geymdir. Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa alltaf neitað slíkum kenningum.
Raunverulegur tilgangur svæðisins er óþekktur en það var ekki formlega skilgreint sem hersvæði fyrr en árið 2013.