12 manns hið minnsta eru taldir hafa farist í eldsvoða í teiknimyndastúdíói í Kyoto í Japan í morgun. BBC segir slökkvilið telja að um íkveikju sé að ræða. Tugir til viðbótar slösuðust.
Samkvæmt japönskum fjölmiðlum braut maður sér leið inn í myndver Kyoto Animation Co. og úðaði þar vökva, sem ekki er enn búið að greina.
Lögregla handtók meintan geranda, sem hefur enn ekki verið nafngreindur, en hann var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar vegna sára sem hann hlaut í eldinum.
Kyoto Animation fire: One dead after suspected arson attack https://t.co/rxcPsyLgGF
— BBC News (World) (@BBCWorld) July 18, 2019
„Karlmaður úðaði vökva og kveikti svo í honum,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir talsmanni lögregluyfirvalda í Kyoto. Ekki hefur verið upplýst um hver ástæða árásarinnar kunni að vera.
Japanska NHK-sjónvarpsstöðin segir vitni hafa heyrt manninn segja „drepist“ áður en hann kveikti í húsinu.
Eldurinn kviknaði í kvikmyndaverinu, sem er í þriggja hæða byggingu, um hálfellefuleytið í morgun að staðartíma.
Björgunaraðgerðum er ekki lokið og vinnur slökkviliðið nú að því að ná út nokkrum einstaklingum sem fastir eru inni í húsinu.
At least 12 people are presumed dead and more could be missing after they were trapped by fire at a popular animation production studio in Kyoto, Japan. https://t.co/otJUPnJt1G
— NBC News (@NBCNews) July 18, 2019
Fólk í nágrenni myndversins segist hafa heyrt röð sprenginga og að það hafi síðar séð fólk borið út á teppum.