Lúpína er til umræðu víðar en á Íslandi, og sitt sýnist hverjum í þeim efnum. Umhverfisstofnun Svíþjóðar hefur viljað takmarka útbreiðslu hennar, en Evrópureglur gera henni erfitt fyrir.
Andstæðingar lúpínunnar telja hana of aðgangsharða í plönturíkinu. Lúpínan er enda harðger planta, skýtur rótum á ótrúlegustu stöðum og breiðist út á ógnarhraða. Á það hefur verið litð sem kost hérlendis þar sem mikið er um gróðursnauðar auðnir, en þeim er ekki fyrir að fara í sama mæli í skógi vaxinni Svíþjóð.
„Þær vaxa alls staðar,“ hefur sænska ríkisútvarpið eftir Anitu Dannö, lúpínuandstæðingi utan við Östersund í Svíþjóð.
Umhverfisstofnunin ber ábyrgð á að fylgjast með ágengum plöntum í sænskri flóru og hefur áhuga á að bregðast við lúpínuútbreiðslu. Það hefur hins vegar ekki gengið þar sem plantan fellur ekki undir nein lög um ágengar plöntur, en þau byggja á Evrópulögum.
Breyting gæti orðið á því á næstunni. Nefnd á vegum Evrópusambandsins fundaði í síðasta mánuði til að ræða hvort taka skyldi lúpínuna inn á listann, og er ákvörðunar að vænta síðar í sumar.
„Ef við fáum lagalegan stuðning frá Evrópusambandinu þá munum við fá möguleikann á að berjast gegn lúpínunni,“ segir Ulf Larsson hjá Umhverfisstofnun Svíþjóðar í samtali við sænska ríkisútvarpið.