Rannsóknargögn bandarísku alríkislögreglunnar FBI sem leynd var létt af í gær benda til þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi átt virkan þátt í að láta greiða klámmyndaleikkonunni Stormy Daniels fyrir að þegja um samband þeirra, þrátt fyrir fullyrðingar forsetans um annað.
Reuters-fréttaveitan greinir frá og segir Trump hafa verið virkan í samningagerð um greiðslu skömmu fyrir forsetakosningarnar 2016, þegar starfsfólk framboðs hans og lögfræðingur hans Michael Cohen unnu af kappi að því að forða honum frá frekari hneykslismálum. Skömmu áður höfðu fjölmiðlar birt upptökur með Trump sem urðu til við gerð þáttarins Access Hollywood árið 2005, sem vöktu töluverða hneykslan.
Skjölin, sem dómari í New York fyrirskipaði að yrðu gerð opinber, voru notuð af FBI til að fá heimild til húsleitar á heimili og skrifstofu Cohens. Í skjölin geyma fjölda samskipta milli Trump, Cohens og Hope Hicks, fjölmiðlafulltrúa framboðs Trumps, um málið.
Cohen lýsti sig sekan í ágúst í fyrra um brot á kosningalögum með greiðslunum til Daniels og Playboy-fyrirsætunnar Karen McDougal skömmu fyrir kosningar. Trump hefur hins vegar alla tíð haldið því fram að hann hafi ekkert vitað um greiðslur til Daniels.
Reuters segir gögnin sem hafa nú verið gerð opinber m.a. innihalda 19 blaðsíðna langa beiðni FBI um húsleitarheimild þar sem sýnt er fram á samskipti Cohens við Trump og starfsfólk framboðs hans á meðan Cohen var að semja við lögfræðing Daniels um greiðslu og við útgefendur tímaritsins National Enquirer, sem hafði boðið Trump aðstoð sína við að kaupa réttinn að sögum kvennanna og birta ekki.
Áður en samningaferlið hófst ræddi Cohen við Trump um það bil einu sinni í mánuði og gott sem aldrei við starfsfólk framboðs hans. Mikil breyting var hins vegar á þessu þegar samningaferlið hófst.
Afrit af samtölunum er þó ekki að finna í skjölunum sem gerð voru opinber. Textaskilaboð frá Dylan Howard, hjá útgefenda National Enquirer, til Cohen segja þó: „Keith mun gera þetta,“ í kjölfar fjölda símtala milli þeirra Cohens. Vísar Howard þar til Keith Davidson, lögfræðings Daniels, en Daniels fékk í lok þess mánaðar 130.000 dollara greiðslu fyrir að þegja um samband sitt við Trump. Daginn eftir kom Howard svo á samskiptum milli þeirra Cohen og Davidson um að hefja greiðslurnar, að því er fram kemur í skjölunum.
Hicks fullyrti í vitnisburði sínum fyrir þingnefnd að hún hefði ekki tekið þátt í neinum samræðum milli framboðs Trumps og Cohens um Daniels. Skjölin og sannanir um samræður hennar, forsetans og Cohens þykja hins vegar sýna annað og hefur Jerrold Nadler, formaður dómsmálanefndar þingsins, krafist þess að hún mæti fyrir þingið á ný og útskýri ósamræmið í framburði sínum.
Demókratinn Adam Schiff sem er formaður njósnanefndar þingsins sagði í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér að gögnin sýni að Trump hafi haft virkan þátt í að halda Daniels-málinu leyndu. „Óumflýjanleg niðurstaða af því efni sem hefur verið gert opinber er því sú að það hafi verið nægar sannanir til að ákæra Donald Trump fyrir brot á sömu kosningalöggjöf og sem Michael Cohen lýsti sig sekan um og situr nú í fangelsi fyrir,“ sagði Schiff.