Hinsegin fólk grýtt í gleðigöngu

Óeirðalögregla notaði táragas til þess að yfirbuga hópa fótboltabullna og …
Óeirðalögregla notaði táragas til þess að yfirbuga hópa fótboltabullna og þjóðernissinna sem réðust að gleðigöngunni í Bialystok í dag. AFP

Fyrsta gleðiganga hinsegin fólks í pólsku borginni Bialystok fór fram í dag. Það ætti að vera og er vissulega fagnaðarefni, en ekki allir í borginni voru á sama máli.

Ofbeldi setti svip sinn á daginn. Fótboltabullur og fleiri köstuðu steinum, glerflöskum og öðru lauslegu að þeim sem tóku þátt í göngunni og lögregluþjónunum sem vörðu þá sem gengu fyrir aðkasti.

Yfir 800 manns tóku þátt í þessari fyrstu gleðigöngu í sögu borgarinnar, sem liggur 124 kílómetrum norðan við höfuðborgina Varsjá. Gleðigangan var með hefðbundnu sniði, fólk veifaði fánum og bar skilti með slagorðum. „Ást er ekki synd“ stóð á einu slíku.

Þarna virðist nú allt leika í lyndi. 800 manns tóku …
Þarna virðist nú allt leika í lyndi. 800 manns tóku þátt í göngunni, samkvæmt frétt AFP. AFP

En fótboltabullur borgarinnar, margir íklæddir stuttermabolum sem skörtuðu boðskap þjóðernissinnahreyfinga, köstuðu steinum, smáflugeldum og flöskum að göngufólkinu, samkvæmt því sem AFP-fréttaveitan hefur eftir lögregluþjónum.

Yfir fjörutíu mismunandi viðburðir voru haldnir í borginni í dag, í andstöðu við gleðigönguna. Voru þeir bæði á vegum þjóðernissinna og samtaka trúrækinna kaþólikka. Hundruð manna komu saman til bæna framan við dómkirkjuna í borginni í stað þess að taka þátt í gleði hinsegin fólks.

Réttindi hinsegin fólks eru orðin eitt af aðaldeilumálunum í pólskri innanríkispólitík, en þar hefur kaþólska kirkjan mikil ítök. Jaroslaw Kaczynski, leiðtogi stjórnarflokksins Lög og réttlæti (PiS) hefur einnig lýst því yfir að réttindi samkynhneigðra séu „ógn“.

Réttindi hinsegin fólks eru langt frá því að vera sjálfsagður …
Réttindi hinsegin fólks eru langt frá því að vera sjálfsagður hlutur í huga hluta Pólverja. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert