Ríkisstjórn Frakklands hefur gefið það út að hún fordæmi aðgerðir Ísraelsmanna, sem í dag hafa jafnað nokkur hús Palestínumanna sunnan við Jerúsalem við jörðu. Frakkar segja niðurrifið setja „hættulegt fordæmi“ og að það brjóti í bága við alþjóðalög.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Frakklands. Segir þar að niðurrif eigi sér nú í fyrsta sinn stað á svæði sem er skilgreint sem yfirráðasvæði palestínsku heimastjórnarinnar á Vesturbakkanum samkvæmt Ósló-samkomulaginu.
„Það setur hættulegt fordæmi, sem ógnar tveggja ríkja lausn,“ segir í yfirlýsingunni.
Palestínumenn hafa lýst yfir mikilli óánægju með þessar aðgerðir og Evrópusambandið hefur einnig mótmælt þeim í dag og hvatt Ísraela til þess að hætta niðurrifinu umsvifalaust.
Ísraelar segja byggingarnar ólöglegar, en þær standa nærri girðingunni sem skilur Vesturbakkann frá Jerúsalem, of nærri henni, að sögn Ísraela.