Fannst myrt í nágrenni heimilis síns

Yelena Grigoryeva er sögð hafa verið öflug baráttukona fyrir réttindum …
Yelena Grigoryeva er sögð hafa verið öflug baráttukona fyrir réttindum hinsegin fólks. Ljósmynd/Facebook/Dinar Idrisov

Mannréttindasamtök í Rússlandi segja konu sem virk var í baráttu hinsegin fólks hafa fundist myrta í Sankti Pétursborg um helgina. Lögregluyfirvöld í borginni segja lík konu hafa fundist í runnagróðri í nágrenni heimilis hennar á sunnudag og að hún hafi borið þess merki að hafa verið kyrkt, auk þess að vera með fjölmörg stungusár.

Ættingjar og vinir konunnar upplýstu síðar að konan væri Yelena Grigoryeva, sem var öflug baráttukona fyrir réttindum hinsegin fólks. BBC segir Grigoryeva hafa reglulega fengið morðhótanir fyrir baráttu sína fyrir bættum mannréttindum í Rússlandi.

Aðgerðasinninn Dinar Idrisov, einn vina hennar, sagði í færslu á Facebook að Grigoryeva hefði verið „myrt með hrottalegum hætti í nágrenni heimilis síns“. „Hún var nýlega fórnarlamb ofbeldis og morðhótana,“ skrifaði hann og kvað hana hafa lagt fram nokkrar kærur hjá lögreglu.

Lögregluyfirvöld hafa ekki staðfest frásagnir af morðhótununum, en einn er sagður vera í varðhaldi grunaður um aðild að morðinu, segir rússneska Fontanka-fréttaveitan.

Grigoryeva lét ekki eingöngu málefni hinsegin fólks sig varða, því hún mótmælti einnig innlimun Rússa á Krímskaga og illri meðferð á föngum svo dæmi séu tekin.

Í janúar á síðasta ári fannst aðgerðasinninn Konstantin Sinitsyn látinn nærri heimili sínu í Sankti Pétursborg. Sögðu lögregluyfirvöld hann hafa verið fórnarlamb ráns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert