Suðurkóreski herinn skaut í dag á fjórða hundrað viðvörunarskotum að rússneskri herflugvél sem komin var inn í suðurkóreska lofthelgi. Rússnesk stjórnvöld hafna því að vélin hafi verið í lofthelgi landsins. BBC greinir frá.
Samkvæmt upplýsingum frá varnarmálaráðuneyti Suður-Kóreu var herflugvélin, sem er af gerðinni A-50, komin inn í lofthelgina yfir eyjunum Dokdo og Takeshima. Eyjarnar voru hernumdar af Suður-Kóreu, en Japanir hafa einnig gert tilkall til þeirra.
Segir varnarmálaráðuneytið að skotið hafi verið 360 viðvörunarskotum að vélinni. Rússnesk yfirvöld neita því hins vegar alfarið að rússnesk herflugvél hafi farið inn í suðurkóreska lofthelgi. Segja þau rússneska herinn hafa verið við æfingar yfir alþjóðlegu hafsvæði.
BBC segir þetta vera fyrstu viðlíka uppákomuna milli Rússlands og Suður-Kóreu.
Samkvæmt suðurkóreska hernum fóru þrjár rússneskar og tvær kínverskar herflugvélar inn á svonefnt KADIZ-svæði í morgun, en það er loftvarnarsvæði Kóreuskaga, og ber þeim sem eru þar á ferð að tilkynna komu sína fyrir fram.
Segir BBC rússneskar og kínverskar herflugvélar hafa stöku sinnum farið inn á svæðið undanfarin ár. Ein vélanna nú hélt hins vegar lengra inn á svæðið að sögn suðurkóreskra yfirvalda og var komin inn í lofthelgi landsins. Sendi suðurkóreski herinn því F-15- og F-16-herflugvélar til móts við vélina.
Hafa suðurkóresk yfirvöld lagt fram kvörtun við öryggisráð Rússlands og farið fram á að ráðið grípi til viðeigandi aðgerða. „Við lítum þetta mál mjög alvarlegum augum og verði endurtekning á munum við grípa til enn harðari aðgerða,“ sagði í yfirlýsingu frá forsetaskrifstofu landsins.