Mueller sagt að halda sig við efni skýrslunnar

Robert Mueller, sérstakur saksóknari FBI. Dómsmálaráðuneytið segir hann aðeins eiga …
Robert Mueller, sérstakur saksóknari FBI. Dómsmálaráðuneytið segir hann aðeins eiga að tjá sig um þá hluta skýrslu sinnar sem voru gerðir opinberir. AFP

Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur skrifað Robert Mueller, sérstökum saksóknara FBI, bréf vegna yfirheyrslu Muellers fyrir Bandaríkjaþingi á miðvikudag. Segir í bréfinu að Mueller verði í vitnisburði sínum að halda sig við efni skýrslunnar sem hann gaf út í mars á þessu ári um afskipti rússneskra ráðamanna af bandarísku forsetakosningunum 2016.

Greint hefur verið frá því að bæði dóms- og njósnanefndir þingsins hafi kallað Mueller til yfirheyrslu á morgun vegna skýrslunnar og að yfirheyrslurnar verði sýndar í beinni útsendingu.

CNN segir bréf ráðuneytisins til Muellers kveða á um að vitnisburður hans „verði að halda sig innan marka skýrslunnar af því að“ leynd hvíli yfir hluta viðfangsefna rannsóknar hans. Bréfið var sent sem svar við beiðni Muellers um leiðbeiningar frá ráðuneytinu varðandi vitnisburð hans.

Vona að Mueller segi hvort ákæra eigi Trump

Mueller er ófúst vitni fyrir þingnefndunum og hefur sjálfur sagt skýrsluna vera sinn vitnisburð. Demókratar á þingi vonast til að geta þrýst á Mueller um frekari upplýsingar varðandi rannsókn hans, sem og hvort hann hann myndi mæla með því að Donald Trump Bandaríkjaforseti yrði ákærður, sæti hann ekki á forsetastóli.

Jim Popkin, talsmaður Muellers, segir hann hafa útbúið yfirlýsingu sem hann muni lesa áður en vitnaleiðslurnar hefjast. Hefur Mueller, ásamt litlum hópi fólks sem starfaði með honum að rannsókninni, undanfarið fengið að nota aðstöðu á skrifstofu lögfræðistofunnar Wilmer Hale til að undirbúa sig.

„Þegar hann og ferill hans er til skoðunar er þetta maður sem kemur undirbúinn að borðinu og hann verður klár á miðvikudag,“ sagði Popkin.

Halda tveggja tíma æfingayfirheyrslur

Í bréfi dómsmálaráðuneytisins kemur fram að stefna ráðuneytisins meini Mueller að tjá sig um lagalegar niðurstöður rannsóknarinnar hvað varðar þá einstaklinga sem ekki hafa verið ákærðir, að öðru leyti en því sem þegar má sjá í þeim hlutum skýrslunnar sem hafa verið gerðir opinberir. Þá er Mueller einnig sagt að hann eigi ekki að bera vitni um þá hluta skýrslunnar sem voru ritskoðaðir, sem er um þriðjungur af síðunum 488.

CNN segir Mueller hafa tekið skýrt fram að hann ætli ekki að víkja frá skýrslu sinni. Demókratar vonist þó til að beittar spurningar muni setja hlutina í nýtt samhengi sem geti komið höggi á Trump. Til að undirbúa sig sem best fyrir vitnaleiðslurnar á morgun ætla demókratar í dómsmálanefndinni til að mynda að halda tveggja klukkustunda æfingayfirheyrslu í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert