Breytingar á heila eftir hljóðbylgjuárásir

Bandaríska sendiráðið í Havana. Mynd úr safni.
Bandaríska sendiráðið í Havana. Mynd úr safni. AFP

Hljóðbylgjuárásirnar sem starfsfólk bandaríska sendiráðsins á Kúbu varð fyrir í lok árs 2016 hafa leitt til breytinga á heila þess. Þetta fullyrðir fréttastofa CNN og segir enn þó ekki vitað hvað hafi valdið árásunum.

Rannsóknargrein sem birt var í gær í Journal of the American Medical Association byggir á segulómmyndum af heilum 40 einstaklinga, 23 karla og 17 kvenna, úr sendiráðinu sem bornar voru saman við myndir af heila 48 annarra einstaklinga. Eru myndirnar sagðar sýna breytingar í uppbyggingu heilans og tengslum heilastöðva.

Segulómmyndirnar voru teknar á tímabilinu frá því í ágúst 2017 til júní 2018.

Það voru hópar breytinga um allan heilann,“ hefur CNN eftir höfundi rannsóknarinnar, Ragini Verma, prófessor í röntgenfræðum og taugaskurðlækningum við Perelman-læknaskólann í Pennsylvaníu. „Það var sérstaklega á svæði sem nefnist litli heili, sem einnig tengist mörgum þeirra heilsufarslegu einkennum sem flestir sjúklinganna fundu fyrir, m.a. jafnvægi, augnhreyfingar, svimi og svo framvegis.“

Eru breytingar á tengslum einnig sagðar hafa verið sýnilegar á heyrnar- og rýmisgreindarsviði heilans.

Greinarhöfundar segja klínískt mikilvægi þeirra uppgötvana hins vegar vera óljóst þar sem ekki hafi verið til eldri segulómmyndir af heilum sjúklinganna sem hægt var að bera myndirnar saman við. Mynstrið falli þá ekki að neinni þekktri sjúkdómsgreiningu.

„Þetta líkist hvorki myndum eftir alvarlegan heilaskaða né heilahristing þótt klínísku einkennin líkist heilahristingi,“ sagði Verma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert