Hitamet féllu í Niðurlöndum

Fólk svalar sér í Meent-sundlauginni í Breukelen.
Fólk svalar sér í Meent-sundlauginni í Breukelen. AFP

Hitabylgja gengur nú yfir meginland Evrópu og hafa hitamet víða fallið. Í Hollandi og Belgíu mældust 38,9 gráður og 39,1 gráða, í þessari röð, og er það hæsti hiti sem mælst hefur í nágrannaríkjunum. 

Þá búa Bretar sig undir að hiti gæti náð 39 gráðum á fimmtudag og slegið hitamet frá árinu 2003 þegar 38,5 gráður mældust í Kent-sýslu á Englandi. Rýma þurfti lest Eurostar á leið til London í dag eftir að rafmagn fór af lestarvögnum vegna hitans.

Heitt hefur verið í allt sumar í Evrópu og er greint frá því í Independent að hiti í Frakklandi sé um 15 gráðum hærri en eðlilegt þyki og er von á að hitamet í höfuðborginni verði slegið á næstu dögum þegar hiti gæti náð 40 gráðum. Landshitamet féll í Frakklandi í síðasta mánuði þegar hiti náði 45 gráðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert