Johnson orðinn forsætisráðherra

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, flutti stefnuræðu fyrir utan aðsetur forsætisráðherra …
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, flutti stefnuræðu fyrir utan aðsetur forsætisráðherra að Downing-stræti 10. AFP

„Þeir sem veðja gegn Bretlandi munu tapa,“ sagði Boris Johnson, nýr forsætisráðherra Bretlands, í ræðu sinni fyrir utan Downingstræti 10 í dag. Hann hlaut umboð til myndunar ríkisstjórnar hjá Englandsdrottningu í kjölfar þess að Theresa May afhenti drottningu afsagnarbréf sitt.

„Við munum endurheimta traust á lýðræðinu og við munum uppfylla endurtekin loforð þingsins til þjóðarinnar um að ganga úr Evrópusambandinu þann 31. október án nokkurs vafa,“ tilkynnti hann.

Hét hann því að gerður verður nýr samningur við Evrópusambandið sem mun tryggja viðskipti og samstarf við Evrópu sem mun byggja á frjálsum viðskiptum og gagnkvæmum stuðningi. „Ég hef fulla trú að á 99 dögum munum við hafa leyst þetta.“

Þá hét hann því einnig að vinna í þágu þjóðar og lofaði 20 þúsund fleiri lögreglumönnum á götum úti, uppfærslu 20 sjúkrahúsa, betri heimilishjúkrun og hærri greiðslur með hverjum nemenda á grunnskólastigi.

„Ég geng í persónulegri ábyrgð fyrir þeim breytingum sem ég vil sjá,“ sagði forsætisráðherrann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert