Bandaríski milljarðarmæringurinn Jeffrey Epstein fannst meðvitundarlítill í fangaklefa í gærkvöld en grunur leikur á að hann hafi reynt að fremja sjálfsmorð. Epstein hefur setið á bak við lás og slá síðan í byrjun mánaðarins.
Epstein, sem er 66 ára, bíður þess að réttað verði yfir honum en hann hefur verið ákærður fyrir að eiga samræði við stúlkur undir lögaldri, fyrir mansal og skipulagningu mansals.
Samkvæmt erlendum fréttamiðlum var Epstein með litla meðvitund og áverka á hálsi þegar fangaverðir komu að honum í gær.
Ekki er vitað hvernig Epstein varð fyrir meiðslunum en talið er líklegt að hann hafi annað hvort reynt að taka eigið líf eða hann hafi orðið fyrir árás samfanga sinna. Hann var fluttur á spítala til aðhlynningar.
Verði Epstein fundinn sekur á hann yfir höfði sér allt að 45 ára fangelsi. Honum var í síðustu viku neitað um lausn gegn tryggingu.