Fjöllin eru að hrynja

00:00
00:00

Tind­ur­inn Mont Blanc er vin­sæll viðkomu­staður fjall­göngu­fólks yfir sum­ar­tím­ann. Fjöldi vin­sælla klif­ur­leiða á tind­inn eru hins veg­ar nú tald­ar of hættu­leg­ar til að hægt sé að nota þær. Ástæðan er hrun úr fjall­inu sem rekja má til lofts­lags­vár­inn­ar.

AFP-frétta­veit­an seg­ir þá fjall­göngu­menn sem þekkja vel til Frönsku alp­anna, bæði fjalla og jökla, hafa kom­ist að þeirri óhugn­an­legu niður­stöðu að fjöll­in séu að hrynja í kring­um þá.

„Þau eru að fara hratt. Fyr­ir tíu árum hefði ekki hvarflað að mér að hröðunin yrði þetta mik­il,“ seg­ir Ludovic Ravanel, vís­indamaður við Sa­voie Mont Blanc-há­skól­ann, sem rann­sak­ar berg­hlaup á svæðinu. „Ef maður horf­ir á þetta út frá framtíðarspám koll­ega minna lofts­lags­fræðing­anna fyr­ir næstu 10-20 ár á þetta bara eft­ir að versna.“

Víða í Evr­ópu eru áhrif lofts­lags­breyt­inga hæg­ari en svo að tekið sé eft­ir þeim, þó að hita­met sem sleg­in hafa verið bæði í júní- og júlí­mánuði þetta sum­arið sem og vatns­skort­ur hafi vakið at­hygli margra.

Áhrif hlýn­un­ar jarðar sýni­leg 

Á svæðinu í kring­um Mont Blanc hef­ur hlýn­un jarðar þegar skilið eft­ir sig sýni­leg um­merki.

Árið 2005 hrundi stór klett­ur, Bonatti-stöpull­inn svo­nefndi, í kjöl­far hita­bylgju tveim­ur árum áður. 292.000 rúm­metr­ar af grjóti hrundu niður í dal­inn fyr­ir neðan öll­um að óvör­um. Með Bonatti-stöpl­in­um hvarf líka kenni­merki sem hafði verið vel sýni­legt frá ferðamanna­bæn­um Chamon­ix og um leið draum­ur margra klettaklifr­ara að sigr­ast á stöpl­in­um sem var nefnd­ur í höfuðið á ít­alska fjalla­mann­in­um Walter Bonatti.

Berg­hrun held­ur áfram að eiga sér stað á minna þekkt­um upp­göngu­leiðum og myndi vænt­an­lega vekja litla at­hygli ef ekki væri fyr­ir vinnu vís­inda­manna eins og Ravanels, en hann hef­ur skrá­sett berg­hrunið í doktors­rit­gerð sinni.

Stöku sinn­um vek­ur berg­hrunið at­hygli inn­an klif­ur­sam­fé­lags­ins, líkt og þegar Arete des Cos­mique-kambur­inn hrundi síðasta sum­ar, en þangað er oft farið með þá byrj­end­ur sem von­ast til að ná hinum 4.810 metra háa tindi Mont Blanc.

„Viss­ir hamra­vegg­ir eiga ekki mik­inn tíma eft­ir,“ seg­ir Ravanel en faðir hans var fjalla­leiðsögumaður. Ástæða þessa er að sífrer­inn sem bind­ur grjót­lög­in sam­an er að hverfa úr jörðu.

Hop jökla vegna hækk­andi hita­stigs ger­ir tind­ana líka viðkvæm­ari, þar sem þeir hafa ekki sama stuðning frá ísn­um og áður. AFP seg­ir að þó að landrof sé stöðugt og nátt­úru­legt ferli og grjót­hrun hafi verið hætta sem klettaklifr­ar­ar hafi staðið frammi fyr­ir frá því þeir byrjuðu að klifra telji vís­inda­menn lofts­lags­vána vera að hraða eyðingu Alp­anna.

„Klett­ur­inn tók að titra“

Áhyggj­ur af styttri vetr­um og hlýrri sumr­um eru líka áhyggju­efni margra sem hafa at­vinnu sína af skíðavertíðinni.

Í Cou­vercle-fjalla­kof­an­um ofan við Mer de Glace-jök­ul­inn ræða 50 fjalla­leiðsögu­menn og klettaklifr­ar­ar ör­ygg­is­mál. Marg­ir vilja vita hvort það muni frysta aft­ur um nótt­ina og snjór­inn verði þar með þétt­ari og hvort ákveðnar leiðir séu opn­ar og ör­uggt að fara þær við nú­ver­andi aðstæður.

All­ir eiga þeir þó sín­ar hryll­ings­sög­ur sem þeir tengja hlýn­un jarðar, m.a. leiðsögumaður frá ná­granna­bæn­um Thonon sem hafði verið að klífa Aiguille du Peig­ne-tind­inn. „Klett­ur­inn tók að titra,“ seg­ir hann. „Ég mun ekki fara þangað aft­ur á næst­unni.“

Er ann­ar leiðsögumaður nefn­ir hvernig hann sé far­inn að forðast viss­ar þekkt­ar klif­ur­leiðir þagna all­ir. „Þetta stór­kost­lega granít­berg. Þess­ir þekktu hamra­vegg­ir, maður veit að þeir munu hrynja,“ seg­ir hann.

Leiðirn­ar hættu­legri og erfiðari en áður

Staðfest­ingu á rýrn­un fjall­g­arðsins má finna í ný­legri rann­sókn sem bygg­ir á vin­sælli fjalla­bók  eft­ir Gast­on Rebuffat, þekkt­an fjalla­mann. Bók­in var gef­in út árið 1973 og heit­ir „100 Most Beautif­ul Rou­tes“ sem út­leggja má sem „100 feg­urstu leiðirn­ar“ og hef­ur verið eins kon­ar bibl­ía fjalla­manna.

Ravanel og fleiri fræðimenn rann­sökuðu leiðirn­ar í bók Rebuffats og hvernig þær hefðu breyst á þeim 45 árum sem eru liðin frá því bók­in kom fyrst út.

Meiri­hluti allra leiðanna sem Rebuffat lýs­ir í bók sinni hef­ur nú þegar breyst af völd­um lofts­lags­vár­inn­ar, áhrif­in á 26 þeirra eru veru­leg og þrjár leiðanna eru ein­fald­lega ekki til leng­ur.

Teymi sér­fræðinga við Sa­voie Mont Blanc-há­skól­ann hef­ur rann­sakað ís­inn, snjóþekj­una og að hve miklu leyti klett­ar séu nú auðir, hvert ástand jökl­anna sé og hvort jök­ul­sprung­ur séu að breikka.

Þeir segja besta klif­ur­tím­ann nú hafa færst frá sumri yfir á vor og haust og þá séu leiðirn­ar al­mennt orðnar hættu­legri og tækni­lega erfiðari.

Fjalla­leiðsögu­nem­inn Yann Gra­va, sem mun ljúka þjálf­un sinni á næsta ári, seg­ist hafa sætt sig við það að hans starfs­tími verði styttri en for­vera hans. „Fjalla­leiðsögu­menn gátu venju­lega starfað við þetta í um 15 ár, ég mun hins veg­ar lík­lega ekki geta unnið í nema 10 ár. Fjöll­in eru að hrynja.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert