Fjöllin eru að hrynja

Tindurinn Mont Blanc er vinsæll viðkomustaður fjallgöngufólks yfir sumartímann. Fjöldi vinsælla klifurleiða á tindinn eru hins vegar nú taldar of hættulegar til að hægt sé að nota þær. Ástæðan er hrun úr fjallinu sem rekja má til loftslagsvárinnar.

AFP-fréttaveitan segir þá fjallgöngumenn sem þekkja vel til Frönsku alpanna, bæði fjalla og jökla, hafa komist að þeirri óhugnanlegu niðurstöðu að fjöllin séu að hrynja í kringum þá.

„Þau eru að fara hratt. Fyrir tíu árum hefði ekki hvarflað að mér að hröðunin yrði þetta mikil,“ segir Ludovic Ravanel, vísindamaður við Savoie Mont Blanc-háskólann, sem rannsakar berghlaup á svæðinu. „Ef maður horfir á þetta út frá framtíðarspám kollega minna loftslagsfræðinganna fyrir næstu 10-20 ár á þetta bara eftir að versna.“

Víða í Evrópu eru áhrif loftslagsbreytinga hægari en svo að tekið sé eftir þeim, þó að hitamet sem slegin hafa verið bæði í júní- og júlímánuði þetta sumarið sem og vatnsskortur hafi vakið athygli margra.

Áhrif hlýnunar jarðar sýnileg 

Á svæðinu í kringum Mont Blanc hefur hlýnun jarðar þegar skilið eftir sig sýnileg ummerki.

Árið 2005 hrundi stór klettur, Bonatti-stöpullinn svonefndi, í kjölfar hitabylgju tveimur árum áður. 292.000 rúmmetrar af grjóti hrundu niður í dalinn fyrir neðan öllum að óvörum. Með Bonatti-stöplinum hvarf líka kennimerki sem hafði verið vel sýnilegt frá ferðamannabænum Chamonix og um leið draumur margra klettaklifrara að sigrast á stöplinum sem var nefndur í höfuðið á ítalska fjallamanninum Walter Bonatti.

Berghrun heldur áfram að eiga sér stað á minna þekktum uppgönguleiðum og myndi væntanlega vekja litla athygli ef ekki væri fyrir vinnu vísindamanna eins og Ravanels, en hann hefur skrásett berghrunið í doktorsritgerð sinni.

Stöku sinnum vekur berghrunið athygli innan klifursamfélagsins, líkt og þegar Arete des Cosmique-kamburinn hrundi síðasta sumar, en þangað er oft farið með þá byrjendur sem vonast til að ná hinum 4.810 metra háa tindi Mont Blanc.

„Vissir hamraveggir eiga ekki mikinn tíma eftir,“ segir Ravanel en faðir hans var fjallaleiðsögumaður. Ástæða þessa er að sífrerinn sem bindur grjótlögin saman er að hverfa úr jörðu.

Hop jökla vegna hækkandi hitastigs gerir tindana líka viðkvæmari, þar sem þeir hafa ekki sama stuðning frá ísnum og áður. AFP segir að þó að landrof sé stöðugt og náttúrulegt ferli og grjóthrun hafi verið hætta sem klettaklifrarar hafi staðið frammi fyrir frá því þeir byrjuðu að klifra telji vísindamenn loftslagsvána vera að hraða eyðingu Alpanna.

„Kletturinn tók að titra“

Áhyggjur af styttri vetrum og hlýrri sumrum eru líka áhyggjuefni margra sem hafa atvinnu sína af skíðavertíðinni.

Í Couvercle-fjallakofanum ofan við Mer de Glace-jökulinn ræða 50 fjallaleiðsögumenn og klettaklifrarar öryggismál. Margir vilja vita hvort það muni frysta aftur um nóttina og snjórinn verði þar með þéttari og hvort ákveðnar leiðir séu opnar og öruggt að fara þær við núverandi aðstæður.

Allir eiga þeir þó sínar hryllingssögur sem þeir tengja hlýnun jarðar, m.a. leiðsögumaður frá nágrannabænum Thonon sem hafði verið að klífa Aiguille du Peigne-tindinn. „Kletturinn tók að titra,“ segir hann. „Ég mun ekki fara þangað aftur á næstunni.“

Er annar leiðsögumaður nefnir hvernig hann sé farinn að forðast vissar þekktar klifurleiðir þagna allir. „Þetta stórkostlega granítberg. Þessir þekktu hamraveggir, maður veit að þeir munu hrynja,“ segir hann.

Leiðirnar hættulegri og erfiðari en áður

Staðfestingu á rýrnun fjallgarðsins má finna í nýlegri rannsókn sem byggir á vinsælli fjallabók  eftir Gaston Rebuffat, þekktan fjallamann. Bókin var gefin út árið 1973 og heitir „100 Most Beautiful Routes“ sem útleggja má sem „100 fegurstu leiðirnar“ og hefur verið eins konar biblía fjallamanna.

Ravanel og fleiri fræðimenn rannsökuðu leiðirnar í bók Rebuffats og hvernig þær hefðu breyst á þeim 45 árum sem eru liðin frá því bókin kom fyrst út.

Meirihluti allra leiðanna sem Rebuffat lýsir í bók sinni hefur nú þegar breyst af völdum loftslagsvárinnar, áhrifin á 26 þeirra eru veruleg og þrjár leiðanna eru einfaldlega ekki til lengur.

Teymi sérfræðinga við Savoie Mont Blanc-háskólann hefur rannsakað ísinn, snjóþekjuna og að hve miklu leyti klettar séu nú auðir, hvert ástand jöklanna sé og hvort jökulsprungur séu að breikka.

Þeir segja besta klifurtímann nú hafa færst frá sumri yfir á vor og haust og þá séu leiðirnar almennt orðnar hættulegri og tæknilega erfiðari.

Fjallaleiðsöguneminn Yann Grava, sem mun ljúka þjálfun sinni á næsta ári, segist hafa sætt sig við það að hans starfstími verði styttri en forvera hans. „Fjallaleiðsögumenn gátu venjulega starfað við þetta í um 15 ár, ég mun hins vegar líklega ekki geta unnið í nema 10 ár. Fjöllin eru að hrynja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert