Hitamet voru í dag slegin í Þýskalandi, Hollandi og Belgíu annan daginn í röð og í París mældist heitasti dagur frá upphafi mælinga er hitamælar í Montsouris í París sýndu 42,6°C um fjögurleitið í dag.
Guardian hefur eftir David Salas y Mélia hjá frönsku veðurstofunni að hitinn sem mældist í París í dag sé meðalhiti í írösku borginni Bagdad í júlí. Hitabylgjan nú sé „óvenju öflug.“
Vísindamenn segja loftslagsvána valda því að líkur á hitabylgjum á borð við þess séu nú fimm sinnum meiri, sem og að þær verði mun svæsnari.
Hitametið sem sett var í Eindhoven í Hollandi í gær entist innan við sólarhring og náði hitinn í dag 40,4°C. Í bænum Deelen fór hitinn þá í 41,7°C í dag að sögn hollensku veðurstofunnarog sló þar með fyrra hitametið í landinu sem var 38,6°C og hafði staðið óhaggað frá árinu 1944.
Í Angleur í Belgíu náði hitinn 40,2°C og í Kleine Brogel sem er nálægt landamærum Hollands fór hitinn upp í 40,6°C. Líkt og í Hollandi þá var belgíska hitametið einnig frá því á fimmta áratug síðustu aldar.
„Þetta er mesti hiti sem mælst hefur í Belgíu – frá því að mælingar hófust 1833,“ hefur Guardian eftir Alex Dawalque hjá belgísku veðurstofunni.
Veðurstofa Þýskalands sagði 41,5°C hafa mælst í bænum Lingen í norðvesturhluta landsins og er það í fyrsta skipti frá upphafi mælinga sem hiti fer yfir 41 gráðu þar í landi. Daginn áður hafði hitametið verið slegið í Geilenkirchen í Norðurrín-Vestfalíu.
Veðurfræðingurinn Einar Sveinbjörnsson vekur máls á þessu á Facebook-síðu sinni og segir einfaldlega: „Þetta er svakalegt!“ og deilir um leið Twitter-færslu frá Gretu Thunberg sem segir hitametum hafa verið rústað í dag.