Kalifornía semur við bílaframleiðendur

Bílar á ferð um hraðbraut í Kaliforníuríki. Mynd úr safni.
Bílar á ferð um hraðbraut í Kaliforníuríki. Mynd úr safni. AFP

Fjórir stórir bílaframleiðendur tilkynntu í dag að þeir hefðu komist að samkomulagi við stjórnvöld í Kaliforníuríki um reglur varðandi eldsneytislosun og sniðganga með því tilraunir stjórnar Donald Trumps Bandaríkjaforseta til að svipta Kaliforníuríki réttinum á að setja eigin staðla.

Kalifornía og fleiri ríki Bandaríkjanna hétu, eftir að Trump afnam stefnu Bandaríkjanna í losunarmálum, að framfylgja losunarstöðlum sem settir voru í forsetatíð Barack Obama.

Reuters segir bílaframleiðendur hafa haft áhyggjur af að dómsmál milli Kaliforníu og alríkisyfirvalda um rétt ríkisins til að setja sína eigin staðla tæki langan tíma.

Það eru Ford, Honda, Volkswagen og BMW sem sömdu við Kaliforníu „á laun“ að því er segir í yfirlýsingu Kaliforníustjórnar sem kveður samkomulagið veita 50 ríkja lausn sem hindri að bútasaumur reglugerða verði til í ríkjum landsins.

„Kalifornía, samband ríkja og þessir bílaframleiðendur eru leiðandi varðandi snjalla stefnu sem gerir loftið hreinna og öruggara fyrir okkur öll,“ sagði í yfirlýsingu frá Gavin Newsom, ríkisstjóra Kaliforníu. „Ég hvet nú afganginn af bílaiðnaðinum til að slást í lið með okkur og Trump-stjórnina til að taka upp þessa hagkvæmu málamiðlun í stað þess að elta áfram afturhaldssamar reglubreytingar. Þetta er það rétta fyrir efnahag okkar, almenning og plánetuna.“

Reuters segir viðbrögð umhverfisverndarsamtaka við samkomulaginu þó vera blendin, en samkomulagið er valkvætt og ekki lagalega bindandi. Það er þó strangara en stefna Trump-stjórnarinnar, en nær ekki þeim kröfum um losun sem reglur Obama-stjórnarinnar kváðu á um.

Kalifornía er fjölmennasta ríki Bandaríkjanna og eru um 12% allra bíla seld þar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert