18 ár fyrir lygar um barnaníð

Carl Beech laug til um að hafa verið misnotaður af …
Carl Beech laug til um að hafa verið misnotaður af barnaníðshring og að hann hafi orðið vitni að morðum af hálfu þess sama hrings. Sökudólgarnir áttu samkvæmt Beech að hafa verið menn hátt settir í bresku stjórnkerfi. Facebook/Carl Beech

51 árs gamall breskur hjúkrunarfræðingur að nafni Carl Beech var á mánudaginn dæmdur í 18 ára fangelsi fyrir falskar ásakanir á hendur hátt settum yfirmönnum í breska hernum um barnaníð og barnamorð. 

Hann hafði sakað hóp manna innan breska hersins um að ræna drengjum, misnota þá og myrða í lok 8. áratugar síðustu aldar og upphafi þess níunda. Ásakanirnar leiddu til gríðarlega umsvifamikilla rannsókna á vegum bresku lögreglunnar. Þær kostuðu fleiri milljónir punda. Enginn var handtekinn.

Engin hæfa virðst þó hafa verið í nokkru sem hann sagði. Fyrrverandi yfirmaður breska hersins, Lord Bramall, var meðal þeirra sem Beech sakaði um að hafa misnotað sig. Yfirlýsing frá Bramall, sem nú er 95 ára, var á þá leið að aldrei hafi hann beðið verri álitshnekki en af fölskum ásökunum Beech, ekki einu sinni í stríði.

Lundúnalögreglan var ávítt fyrir vinnubrögð sín í réttinum.
Lundúnalögreglan var ávítt fyrir vinnubrögð sín í réttinum. AFP

Lögregluembættið í London var harðlega gagnrýnt í dómsalnum fyrir að hafa fylgt ásökunum Beech eftir. Aðgerðir þeirra vöktu mikla fjölmiðlaathygli og um hríð beindust spjótin að hinum ásökuðu.

Harvey Proctor, fyrrverandi þingmaður fyrir Íhaldsflokkinn sem var meðal hinna ásökuðu, sagði ásakanirnar gersamlega hafa eyðilagt líf sitt. Hann varðist vart tárum þegar hann las upp yfirlýsingu sína. „Ásakanir hans, og rannsókn lögreglunnar sem fylgdi í kjölfarið, voru þær verstu sem geta verið hafðar um mann: hann sagði að ég væri barnaníðingur, morðingi og pyntingamaður. Mér finnst alveg magnað að stofnun sem ég virti svo mikils áður, lögreglan, hafi gefið svona fölskum og ótrúverðugum ásökunum brautargengi.“

Dómarinn sagði við uppkvaðningu dómsins að Beech hefði með lygum sínum grafið undan trúverðugleika raunverulegra fórnarlamba kynferðisofbeldis. Hann sagði að Beech þyrfti minnst að sitja inni hálfan dóminn, það eru níu ár. 

Það var í nóvember árið 2014 sem Lundúnalögreglan hóf „Operation Midland,“ rannsóknarverkefninu sem farið var í vegna þessara ásakanna. Því lauk 2016, án þess að nokkuð hafi verið sannað á neinn. Þegar grunur fór að leika á að allar ásakanirnar væru uppspuni frá rótum flúði Beech til Svíþjóðar þar sem hann dvaldist í eitt ár. Við rannsókn á eigum hans sjálfs fundust barnaklámsmyndir, sumar grófar.

Frétt Guardian

Operation Midland

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert