Gæti þurft að aflýsa allt að 1.000 ferðum

Spænska flugfélagið Vueling hefur þurft að aflýsa 112 flugferðum vegna …
Spænska flugfélagið Vueling hefur þurft að aflýsa 112 flugferðum vegna verkfalls helgarinnar. AFP

Vera kann að aflýsa þurfi allt að 1.000 flugferðum til og frá alþjóðaflugvellinum í Barcelona vegna verkfalls flugvallastarfsmanna. Spænska flugfélagið Vueling tilkynnti í dag að það væri búið að aflýsa 112 flugferðum.

Stjórnvöld á Spáni hafa varað við að til þess kunni að koma að aflýsa þurfi hundruð flugferða til viðbótar, en ferðamannatíminn er nú í hámarki.

„Til að draga úr óþægindum fyrir viðskiptavini okkar þá höfum við neyðst til að aflýsa sumum flugferðum í tíma,“ sagði í yfirlýsingu Vueling.

Verkfall 2.700 flugvallarstarfsmanna Iberia flugfélagsins, sem stendur yfir bæði á laugardag og sunnudag, kann þó að hafa enn víðtækari áhrif. Varaði spænska atvinnumálaráðuneytið í gær við því að flugvallarstarfsmennirnir þjónustuðu 27 flugfélög á Barcelona flugvelli. „Þetta getur því haft áhrif á um 1.000 flugferðir,“ sagði í yfirlýsingu ráðuneytisins.

Starfsfólkið segist með verkfallsaðgerðum sínum vilja fordæma starfsmannaskort og álag yfirvinnustunda á mesta annatímanum, sem er í júlí og ágúst. Forsvarsmenn Iberia segja áhrif aðgerðanna hins vegar ekki í samræmi við þetta. Aðgerðirnar komi á versta tíma, þegar margir eiga bókað flug heim eftir sumarleyfi í júlí á meðanað aðrir hópar séu að koma til að verja leyfinu á Spáni í ágúst.

Tvær brottfarir frá Keflavíkurflugvelli til Barcelona eru nú á áætlun um helgina, önnur er með Vueling á laugardag og hin með Norwegian á sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert