Evrópsk flugmálayfirvöld afléttu seint í gærkvöld kyrrsetningu flugvéla af sömu tegund og þeirri sem fórst í Umeå í Svíþjóð um miðjan mánuðinn. Flugvélarnar sem um ræðir eru af gerðinni GA8 Airvan.
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdarstjóri Circle Air, greinir frá þessu í tilkynningu.
Circle Air, sem gerir út þyrlur og flugvélar frá Akureyri og Reykjavík, er með tvær sambærilegar vélar í notkun.
Fram kemur í tilkynningunni frá Þorvaldi að fyrstu rannsóknir bendi til þess að ekki megi rekja slysið til hönnunar- eða smíðagalla heldur óskyldra atriða sem snerta hvorki flughæfi né öryggi flugvéla af þessari tegund.
Circle Air mun taka sínar nýju flugvélar aftur í notkun.