Þríslegið hitamet í Bergen

Óslóarbúar fúlsuðu ekki við blíðunni í dag þegar hitinn fór …
Óslóarbúar fúlsuðu ekki við blíðunni í dag þegar hitinn fór í tæpar 33 gráður síðdegis og brugðu margir á það ráð að kæla sig í gosbrunninum við Karls Jóhannsgötu í miðborginni sem iðaði af lífi og voru gangstéttarveitingahúsin við Karl Jóhann og á Aker-bryggju þétt setin. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

Þrátt fyrir að 6,4 stiga frost hafi mælst í Sognsæ og Firðafylki í Noregi í byrjun mánaðarins njóta Norðmenn nú einmuna veðurblíðu eins og öll Vestur-Evrópa og hefur hitastig í dag verið yfir 30 gráðum í 14 af 18 fylkjum landsins sem fækkaði um eitt 1. janúar 2018 við sameiningu Suður- og Norður-Þrændalaga.

Mestur hiti í landinu mældist 34,8 gráður í dag í Etne í Hörðalandi og var tæp gráða í að landsmetið frá 20. júní 1970 félli, 35,6 gráður. Einhver metin fengu þó að víkja fyrir nýjum og var vesturlandshöfuðstaðurinn Bergen þar mest áberandi í fréttum dagsins þar sem hitamet var þríbætt með 90 mínútna og svo tveggja tíma millibili.

Götulistamenn töfra fram fagra tóna við Karls Jóhannsgötu í Ósló …
Götulistamenn töfra fram fagra tóna við Karls Jóhannsgötu í Ósló í dag. Rétt eins og Íslendingar eru Norðmenn ekki lengi að drífa sig í bæinn þegar sú gula lætur sjá sig og iðar miðborgin af mannlífi slíka daga því rétt eins og Íslendingar vita Norðmenn aldrei hver verður hinsti góðviðrisdagur sumarsins. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

Eldra metið í Bergen leit dagsins ljós 27. júlí í fyrra, nánast upp á dag fyrir einu ári, þegar hiti mældist 32,2 gráður og felldi eldra met frá 1947, 31,8 gráður, sem reyndar var jafnað sumarið 2003, en ekki fellt. Var þessu fagnað mjög á Vesturlandinu í fyrrasumar enda íbúar hins forna vígis Hansakaupmanna þá nánast enn í sigurvímu eftir að hafa rúllað yfir Ósló í „hitakeppni“ 30. maí eins og mbl.is fjallaði um.

Klukkan 14:00 í dag að norskum tíma skriðu svo hitamælar í Bergen upp í 32,4 gráður við mikinn fögnuð bæjarbúa sem ekki dró úr hálfum öðrum tíma síðar þegar hiti þar náði 33,3 gráðum. Ekki sat þó þar við heldur lauk Bergen keppni í 33,4 gráðum klukkan 17:33 sem þar með varð nýjasta metið.

Horft eftir Karls Jóhannsgötu í átt að konungshöllinni.
Horft eftir Karls Jóhannsgötu í átt að konungshöllinni. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

Norskir fjölmiðlar hafa keppst við að greina frá nýjustu hitatölum í landinu í dag enda þykir tæplega 35 stiga hiti meira spennandi en 51,4 stiga frost sem þó hefur sést á mælum í Finnmörku þótt langt sé um liðið.

Norska veðurstofan spáir áfram rjómablíðu og hita, 28 gráðum á morgun, laugardag, og 30 gráðum á sunnudaginn og eru landsmenn svo áhugasamir um hitastig sjávar víða um land með sjóböð í huga að sá hluti vefseturs veðurstofunnar liggur niðri vegna ásóknar.

NRK

NRK II (hitametið í Bergen)

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka