Fær milljarða fyrir múrinn

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseta og ríkisstjórn hans er heimilt að nýta 2,5 milljarða Bandaríkjadala af fjárveitingum til að byggja upp múr á landamærunum við Mexíkó. Hæstiréttur Bandaríkjanna komst að þessari niðurstöðu í gærkvöld.

Sneri Hæstiréttur þar niðurstöðu lægri dómsstiga sem áður höfðu sagt að ríkisstjórn Trump væri ekki heimilt að nýta féð í múrinn vegna þess að þingið hefði ekki úthlutað því beint til verksins.

Trump fagnaði niðurstöðu Hæstaréttar á Twitter og sagði þetta „stóran sigur“.

Fimm dómarar Hæstaréttar komust að þeirri niðurstöðu að ríkisstjórninni væri heimilt að nýta peninga til að byggja upp múrinn. Fjórir voru hins vegar á móti því.

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, var ósátt við niðurstöðu Hæstaréttar og sagði að með henni væri Trump leyft að stela fjármunum til að byggja upp tilgangslausan múr.

Stærstu mannúðarsam­tök Banda­ríkj­anna ACLU og umhverfissamtök vestanhafs heita því að halda áfram að berjast gegn því að múrinn rísi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert