Lögreglustjóri rekinn eftir morð á táningi

Fjölskylda kveikir hér kerti í minningu Alexöndru við rúmenska innanríkisráðuneytið. …
Fjölskylda kveikir hér kerti í minningu Alexöndru við rúmenska innanríkisráðuneytið. Málið hefur vakið mikla reiði í landinu. AFP

Innanríkisráðherra Rúmeníu hefur rekið lögreglustjóra landsins í kjölfar morðs á táningsstúlku, sem hafði ítrekað hringt í neyðarlínuna án þess að hjálparbeiðni hennar væri sinnt. BBC greinir frá.

Stúlkunni, sem var 15 ára gömul, var rænt á miðvikudag. Hún náði að hringja þrisvar sinnum í neyðarlínuna og gat gefið lögreglu lýsingu á staðnum þar sem hún var í haldi.

Fjölskylda stúlkunnar segir lögreglumennina ekki hafa tekið hjálparbeiðni hennar alvarlega á meðan að lögregla segist hafa átt í erfiðleikum með að finna hana út frá lýsingum hennar.

Talið er að mannræninginn hafi myrt stúlkuna, en lögregla fann líkamsleifar og skart sem stúlkan bar í húsi nokkru og var 65 ára maður í kjölfarið hnepptur í varðhald.

Stúlkunni, sem hét Alexandra, var rænt er hún reyndi að húkka sér far heim þar sem hún býr í borginni Caracal í suðurhluta Rúmeníu.

Á fimmtudagsmorgun hringdi hún í þrígang í neyðalínuna og sagði sér hafa verið rænt af bílstjóra sem tók hana upp í.

Lögreglustjórinn Ioan Buda, sem nú hefur verið rekinn, segir Alexöndru hafa hrópað „hann er að koma, hann er að koma“ áður en síðasta símtal hennar við neyðarlínuna slitnaði.

Fullyrða rúmensk yfirvöld að þau hafi upphaflega átt í erfiðleikum með rekja símtalið, en þeim hafi svo tekist að bera kennsl á húsið sem þeir töldu hana vera í um þrjúleytið aðfaranótt föstudags.

Í kjölfarið var farið fram á húsleitarheimild, jafnvel þó þess væri ekki þörf, og því ekki farið inn í húsið fyrr en 19 klukkutímum eftir neyðarsímtöl stúlkunnar.

Reuters fréttaveitan segir lögreglu hafa sent líkamsleifarnar í rannsókn, en talið er að þær tilheyri bæði Alexöndru og 18 ára stúlku sem hvarf í apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert