Vígamenn Boko Haram myrtu í dag 23 syrgjendur sem voru á leið úr jarðaför í Nganzai í norðausturhluta Nígeríu.
AFP-fréttaveitan hefur eftir Bunu Bukar Mustapha, leiðtoga eins uppreisnarhóps á svæðinu að þrír menn á mótorhjólum hafi skotið á hóp manna sem kom gangandi úr jarðarför.
„Okkar menn fjarlægðu 23 lík af vettvangi árásarinnar sem átti sér stað í morgun,“ sagði Mustapha.
Sagði hann mennina hafa verið á leiðinni heim til Badu Kuluwu eftir að hafa verið viðstadda útför ættingja í nágrannaþorpinu Goni Abachari.
Embættismaður í Nganzai staðfesti bæði fjölda látinna og atburðinn sjálfan í samtali við AFP.
„Ég fékk símtal frá Nganzai þess efnis að Boko Haram hefðu myrt 23 manns í nágrenni Badu Kuluwu í morgun,“ sagði embættismaðurinn sem ekki vildi láta nafns síns getið af ótta um eigið öryggi.
Vígamenn Boko Haram hafa staðið fyrir fjölda árása í Nganzai. Í september í fyrra myrtu samtökin átta manns og stálu búfénaði úr tveimur þorpum á svæðinu.
Þá réðust vígamenn samtakanna á búðir flóttamanna í nágrenni borgarinnar Maiduguri á fimmtudag, myrtu tvo og rændu matarbirgðum eftir að hafa kveikt í nálægri herstöð.