65 farast í skotárás á jarðarför

Brunarústir í bænum Budu í Borno héraði eftir að vígamenn …
Brunarústir í bænum Budu í Borno héraði eftir að vígamenn Boko Haram gerðu árás á jarðarfaragesti, sem kostaði 65 manns lífið. AFP

65 manns hið minnsta létu lífið þegar vígamenn Boko Haram samtakanna hófu skothríð á jarðarfarargesti í Borno héraðinu í Nígeríu í gær.

BBC hefur eftir sjónarvottum að árásarmennirnir hafi komið á mótorhjólum og flutningabílum inn í þorpið sem er skammt frá borginni Maiduguri. Fjöldi syrgjendanna létust í árásinni, en aðrir létu lífið er þeir reyndu að hrekja árásarmennina á brott.

Árásir íslamista hafa færst í aukana í héraðinu og hefur BBC eftir embættismanni stjórnvalda á svæðinu að þessi síðasta árás sé hefndaraðgerð fyrir dráp þorpsbúa á 11 Boko Haram-liðum fyrir hálfum mánuði síðan.

Tugir þúsunda almennra borgara hafa látið lífið og meira en tvær milljónir hafa hrakist frá heimilum sínum í átökum undanfarins áratugar.

Lausleg þýðing á Boko Haram er „bann við vestrænni menntun“, en vígasamtökin halda á lofti útgáfu íslamstrúar sem bannar múslimum að taka þátt í vestrænum pólitískum eða félagslegum athöfnum. Stefna samtökin að því að steypa stjórninni og mynda íslamskt ríki.

Boko Haram hafa ekki eingöngu verið virk í Nígeríu, heldur líka í nágrannaríkjunum Chad, Níger og Kamerún. Vígasamtökin hafa m.a. illt orð á sér fyrir að ræna skólastúlkum og rötuðu m.a. í heimsfréttirnar 2014 er þau rændu tæplega 300 skólastúlkum í bænum Chibok  í Borno héraði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka