Tugir gullgrafara hafa ráðist inn í afskekkt verndarsvæði Waiapi-frumbyggja í Amazon-frumskógi í Brasilíu. Þorpsleiðtoginn var stunginn til bana og flúðu aðrir íbúar svæðið, sem þekur um 600.000 hektara og er nú á valdi gullgrafaranna. Ýmsir stjórnmálamenn hafa hvatt til þess að lögregla hefji rannsókn á málinu.
Ólöglegur gullgröftur í Amazon er faraldur sem veldur skógareyðingu og mikilli kvikasilfursmengun í ám. Gullgrafararnir sem um ræðir fundust í gær, en talið er að þorpshöfðinginn, Emyra Waiapi, hafi dáið á miðvikudag.
Gullgrafararnir réðust að þorpi innfæddra og eru þar enn. Þeir eru þungvopnaðir og með hríðskotabyssur. Þess vegna biðjum við alríkislögregluna um hjálp,“ hefur Guardian eftir Kureni Wauapi, 26 ára frumbyggja sem býr í næsta bæ, í tæplega 200 kílómetra fjarlægð. „Ef ekkert er að gert hefjast átök.“
Hann segir þó stjórnmálamönnum vera um að kenna. Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hafi stutt árásir sem slíkar og ítrekað lofað námumönnum að gröftur í landi frumskógarins skuli aukinn.