Óvenjumikið um drukknanir

Hitabylgjan undanfarið veldur því að fleiri hafa farið út að …
Hitabylgjan undanfarið veldur því að fleiri hafa farið út að synda en venjulega. Mynd úr safni. AFP

Þetta hefur verið annasöm helgi hjá viðbragðsaðilum, ekki bara íslensku Landhelgisgæslunni, sem var með þyrlu sína nær stöðugt á ferðinni í gær, heldur líka fyrir norska slökkviliðið sem var kallað út óvenju oft vegna einstaklinga sem voru að drukkna.

Norska ríkisútvarpið NRK greinir frá því að á innan við sólarhring hafi norskir fjölmiðlar greint frá sjö útköllum vegna einstaklinga sem voru hætt komnir og við það að drukkna. Það hafi hins vegar verið bara hluti  málanna. Var umfangið raunar slíkt að slökkviliðið í Osló sá ástæðu til að gefa út sérstaka aðvörun.

Hefur NRK eftir Knut Halvorsen, lögreglustjóra í Osló, að fjöldin sé óhugnanlega mikill og aðeins toppurinn á ísjakanum hafi ratað í fjölmiðla.

Segir hann flest útköllin vera að kvöldi til. „Við erum með fjölda tilfella þar sem við eða aðrir hafa bjargað fólki úr vatninu og sem engin fjölmiðlaumfjöllun hefur verið um,“ sagði Halvorsen.

„Í flestum þessara drukknunaróhappa voru björgunarvesti ekki notuð og svo er það þetta með áfengið.“

Sagði Halvorsen hitabylgjuna nú valda því að mörgum detti í hug að skreppa í sjóinn eftir að hafa verið úti að skemmta sér.  „Það er hins vegar hreint og beint lífshættulegt,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert