Vitnisburður Robert Muellers, sérstaks saksóknara FBI, „rauf lygina“ sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur haldið fram. Sagði Jerrold Nadler, formaður dómsmálanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, þetta mögulega hafa varðað leiðina fyrir ákæru á hendur forsetanum.
Dómsmála- og njósnanefndir þingsins héldu sl. miðvikudag sjö klukkustunda langar vitnaleiðslur yfir Mueller, sem í mars skilaði inn skýrslu sinni um afskipt rússneskra ráðamanna af bandarísku forsetakosningunum 2016.
Guardian greinir frá og segir þessa yfirlýsingu Nadler þó ekki fela í sér að ferli til að koma Trump úr embætti sé hafið.
Adam Schiff, formaður njósnanefndarinnar, segir þingnefndirnar nú vera í „undirbúningsvinnu fyrir málshöfðun“.
Nadler, demókrataþingmaður frá New York, varði í samtaki við ABC sjónvarpsstöðina þá ákvörðun að láta Mueller bera vitni. „Ég tel að það hafi verið mjög mikilvægt að hann bæri vitni,“ sagði Nadler. „Af því að hann rauf lygina sem forsetinn og dómsmálaráðherrann hafa haldið að bandarískum almenningi.
Frá því skýrsla hans var gefin út hafa dómsmálaráðherrann og forsetinn mistúlkað hana, logið að bandarískum almenningi um hana. Þeir hafa sagt engin merki um samráð í skýrslunni, engin merki um hindrun réttvísinnar og að hún hafi fullkomlega hreinsað forsetann af ásökununum.“
Sagði Nadler því næst þessar fullyrðingar þrjár vera lygi.
„Það var mjög mikilvægt fyrir Mueller að koma þarna upp og segja nákvæmlega það,“ bætti hann við.
Í vitnisburði sínum hélt Mueller sig alfarið innan marka 448 blaðsíðna langrar skýrslu sinnar. Hann hafði lýst sig tregan til að bera vitni og höfðu sumir bandarískir stjórnmálaskýrendur að orð á að hann hikaði og virtist tregur til. Sá Washington Post meira að segja ástæðu til að hafa orð á því í frétt í gærdag að „sumir þingmannanna hafi velt því fyrir sér í hljóði hvort eitthvað sé til ... í þeim orðrómi“ að Mueller „sé ekki jafn skarpur og hann var áður“.
Talsmaður Muellers neitaði að tjá sig um fréttina, en Trump var ekki lengi að stökkva á vagninn og fagna „mestu sýningu á klaufaskap og vanhæfni sem nokkru sinni hafi sést í þingsölunum“.
Dómsmálanefnd þingsins lagði á föstudag fram formlega beiðni til dómstóla um að fá aðgang að sönnunargögnunum sem Mueller sankaði að sér við gerð skýrslunnar og var þar 76 sinnum minnst á lögsókn vegna ákæru embættisglöp.