Thunberg siglir til New York

Greta Thunberg mun sigla yfir Atlantshafið í ágúst vegna þess …
Greta Thunberg mun sigla yfir Atlantshafið í ágúst vegna þess að hún notar ekki mengandi samgöngumáta. AFP

Sænski umhverfisaðgerðarsinninn, Greta Thunberg hefur ákveðið að mæta á loftslagsráðstefnur í Ameríku sem er forvitnilegt fyrir þær sakir að það er þekkt að hún flýgur ekki vegna losunaráhrifa flugsamgangna. Í staðinn hyggst Thunberg sigla yfir Atlantshafið í 60 feta skútunni Malizia II, að því er segir í umfjöllun BBC.

Thunberg sagði frá fyrirætlun sinni á Twitter. Þar tísti hún að hún mun meðal annars mæta á aðgerðarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York og COP25 ráðstefnunni í Santiago.

Thunberg hafði fyrir nokkru lýst áhuga á því að mæta á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fer fram í september, en var í erfiðleikum með að finna leið til þess að ferðast þangað. Stendur til að leggja af stað um miðjan ágúst frá Bretlandi til New York.

Það var áhöfn Malizia II sem hafði samband við Thunberg og bauð henni far yfir Atlantshafið, en faðir hennar mun einnig ferðast með henni. Boris Herrmann, skipstjóri, siglir skútunni og verður Pierre Casiraghi, úr konungsfjölskyldu Mónakó, einnig um borð auk Nathan Grossmann, sænsks heimildarmyndargerðarmanns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert