Heimila byggðir fyrir Ísraela og Palestínumenn

Palestínskir verkamenn að störfum í landnemabyggð Ísraela á Vesturbakkanum.
Palestínskir verkamenn að störfum í landnemabyggð Ísraela á Vesturbakkanum. AFP

Ísraelsk stjórnvöld hafa samþykkt byggingu 6.000 nýrra heimila fyrir gyðinga í landnemabyggðunum á Vesturbakkanum og 700 heimili fyrir Palestínumenn.

BBC greinir frá þessu og segir ákvörðun um byggingaframkvæmdirnar auka enn á umfang ísraelskra yfirvalda á Vesturbakkanum. Öllu óvenjulegri hins vegar samþykkt byggða fyrir Palestínumenn. Alþjóðasamfélagið telur byggðir Ísraela á Vesturbakkanum vera ólöglegar. Ísraelsk stjórnvöld hafa hins vegar dregið slíkar ályktanir í efa.

Ekki liggur fyrir hvort um er að ræða 700 ný heimili fyrir Palestínumenn, eða einfaldlega lagalega samþykkt íbúðabygginga sem þegar eru á svæðinu. 

Stjórn Palestínumanna á svæðinu  hafnaði yfirlýsingunni og kvaðst hafna alfarið allri uppbyggingu Ísraela eða stjórn þeirra yfir framkvæmdum Palestínumanna á Vesturbakkanum.

Tilkynningu sína sendu Ísraelsk stjórnvöld í aðdraganda heimsóknar Jared Kushner, tengdasonar Donald Trumps Bandaríkjaforseta, til Ísraels. Kushner hefur farið fyrir tilraunum Hvíta hússins að koma á friðarviðræðum milli Ísraela og Palestínumanna á ný.

Hafa ísraelskir fjölmiðlar verið með vangaveltur um það hvort að tilkynningin um Palestínubyggðirnar eigi að liðka fyrir að þau Arabaríki sem styðja Palestínumenn taki þátt í mögulegum friðarviðræðum í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert