Vladimir Pútín, Rússlandsforseti, hefur óskað eftir aðstoð hersins til að takast á við mikla skógarelda sem hafa geisað í Síberíu undanfarna daga.
Reykjarmökkur hefur umlykið heilu borgirnar vegna eldanna. Umhverfisverndarsinnar hafa varað við því að skógareldarnir geti flýtt fyrir hlýnun jarðar, svo ekki sé minnst á öll þau heilsufarsvandamál sem þeir geta valdið heimamönnum.
Eldarnir ná yfir um þriggja milljóna hektara svæði í mið- og austurhluta Rússlands.
„Eftir að hafa séð skýrslu frá ráðherra neyðarmála bað Pútín varnarmálaráðuneytið um að taka þátt í að slökkva eldana,“ sagði upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar við rússneska fjölmiðla.
Um 2.700 slökkviliðsmenn hafa nú þegar barist við eldana.
Að sögn varnarmálaráðuneytisins hafa tíu flugvélar og tíu þyrlur verið sendar í héraðinu Krasnoyarsk, þar sem eyðileggingin hefur verið einna mest. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í fimm héruðum.
Undirskriftalisti hefur verið settur upp á vefsíðunni change.org þar sem stjórnvöld eru hvött til að leggja meira af mörkum í baráttunni við eldana og hafa um 800 þúsund manns skrifað undir.
Eldarnir hafa að mestu geisað á afskekktum svæðum og hafa stjórnvöld greint frá því að þeir verði ekki slökktir nema reiknað sé með meiri skemmdum en sem nemur kostnaði við slökkvistarf.
Að sögn Greenpeace í Rússlandi hafa um 12 milljónir hektara brunnið í landinu á þessu ári með tilheyrandi koltvísýringi sem hefur farið út í andrúmsloftið.