Bandaríska fjármálaráðuneytið hefur ákveðið að beita Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans efnahagsþvingunum. Aðgerðirnar frysta allar eignir Zarif í Bandaríkjunum og hafa einnig áhrif á ferðalög ráðherrans.
Steven Mnuchin fjármálaráðherra sagði að Zarif væri helsti talsmaður Írans á alþjóðavettvangi. Bandarísk stjórnvöld vildu með þessu senda stjórnvöldum í Tehran þau skilaboð að hegðun þeirra uppá síðkastið sé óásættanleg.
Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi frá því í lok síðasta mánaðar að ákveðið hefði verið að beita Ayatollah Ali Khamenei, erkiklerk og æðsta ráðamann Írans, „grimmum“ efnahagsþvingunum.
Háttsettur maður í Trump-stjórninni sagði að ímynd Zarif, sem byggði á góðri enskukunnáttu eftir námsdvöl vestanhafs, væri ósönn. Zarif væri áróðursmálaráðherra, ekki utanríkisráðherra.
Sjálfur sagði Zarif að stjórnvöld í Bandaríkjunum væru að reyna að þagga niður í Írönum. Hann spurði hvort það væri virkilega svona erfitt að heyra sannleikann.