32 farast í árás á hersýningu í Jemen

Skjásot úr jemensku sjónvarpi sem sýnir öryggissveitir stjórnarhersins flýta sér …
Skjásot úr jemensku sjónvarpi sem sýnir öryggissveitir stjórnarhersins flýta sér á árásarstað í borginni Aden. 32 hið minnsta létu lífið. AFP

32 fórust hið minnsta létu lífið í árás á hersýningu í hafnarborginni Arden í Jemen í morgun. BBC greinir frá og segir uppreisnarmenn húta fullyrða að árásin hafi verið gerð með fjarstýrðum eldflaugum og vopnuðum dróna.

Sú stjórn Jemen, sem viðurkennd er af alþjóðasamfélaginu, hefur höfuðstöðvar sínar í Aden.

Segja uppreisnarmenn hersýninguna hafa verið hluta af undirbúningi hersveita, stjórnarhersins, fyrir árás á svæði húta norður af borginni.

Stjórnvöld segja hersýninguna hins vegar hafa verið hluta af útskriftarathöfn nýútskrifaðra hermanna.

Reuters-fréttaveitan hefur eftir einum sjónarvottanna að lík hafi legið eins og hráviður á jörðinni og hermenn hefðu sést grátandi. Talið er að hátt settur herforingi sé í hópi þeirra sem fórust.

„Sprengingin var rétt fyrir aftan pallinn þar sem athöfnin átti sér stað,“ sagði vitnið. „Hópur hermanna var þar grátandi yfir líki sem talið er vera af foringjanum.“

Hjálparsamtökin Læknar án landamæra segja tugi hafa særst í árásinni. Árásin var gerð á öryggisbeltið svo nefnda, svæði sem er á valdi stjórnarhersins.

Fyrr um daginn var sjálfsvígsárás gerð á lögreglustöð í Aden  sem kostaði þrjá lögreglumenn lífið. Að sögn BBC er ekki vitað hvort tengsl séu milli árásanna tveggja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert