Móðir bandaríska rapparans A$AP Rocky heimsótti son sinn í fyrsta sinn í fangelsið í Svíþjóð þar sem hann hefur dvalið síðan hann var handtekinn vegna líkamsárásar 30. júní.
Renee Black heitir hún og var hún viðstödd byrjun réttarhaldanna yfir honum á þriðjudag.
Rapparinn er sakaður um að hafa ráðist á ungan afganskan hælisleitanda í Stokkhólmi og gæti átt allt að tveggja ára fangelsi yfir höfði sér.
Rocky mun gefa skýrslu fyrir dómi í dag og voru tugir aðdáenda og fjölmiðlamanna búnir að mynda röð fyrir framan dómshúsið í morgun til að komast inn í dómsalinn til að fylgjast með. Hann lýsti sig saklausan af ákærunni á þriðjudag.
Búist er við að réttarhöldunum ljúki á morgun og þá kemur í ljós hvenær dómsuppsaga fer fram. Líklegt þykir að rapparinn verði áfram í gæsluvarðhaldi þangað til dómurinn fellur.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ítrekað kallað eftir því að Rocky verði sleppt úr haldi og hefur sent sérstakan samningamann úr gíslatökuteymi sínu til Svíþjóðar til að fylgjast með réttarhöldunum og reyna að vinna að heimför rapparans.