Búist er við að réttarhöldunum yfir bandaríska rapparanum A$AP Rocky ljúki í dag. Á meðal þeirra sem hafa borið vitni er lífvörður hans.
Rapparinn, sem er þrítugur og heitir réttu nafni Rakim Mayers, var handtekinn vegna líkamsárásar 3. júlí ásamt þremur öðrum eftir slagsmál á götum Stokkhólms 30. júní.
Þegar rapparinn mætti í réttarsalinn í dag var hann klæddur dökkum jakkafötum í stað græna fangaklæðnaðarins sem hann klæddist í gær og í fyrradag. Aðdáendur hans hópuðust saman fyrir utan dómshúsið og kölluðu „Frelsið Rocky“ og „Frelsið Flacko“.
Dómarinn Per Lennerbrant veitti leyfi fyrir nýjum sönnunargögnum í málinu af hálfu verjenda rapparans. Rætt var við vitni, þar á meðal tvær ungar konur sem eru vinkonur 19 ára piltsins sem Rocky er sakaður um að hafa ráðist á og opinberan starfsmann sem greindi frá andlegu ástandi piltsins eftir atvikið.
Lífvörður Rocky sagði að pilturinn hefði áreitt og elt rapparann og fylgdarlið hans og bætti við að pilturinn hefði reynt að kýla rapparann áður en slagsmálin brutust út.
Reiknað er með því að réttarhöldunum ljúki síðar í dag með lokaræðum lögmanna beggja aðila. Dómarinn Lennerbrant hefur þó gefið í skyn að réttarhöldin gætu haldið áfram eftir helgi.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ítrekað óskað eftir því að Rocky verði sleppt úr gæsluvarðhaldi. Alls hafa 640 þúsund manns skrifað nöfn sín á undirskriftalistann #JusticeForRocky þar sem krafist er lausnar hans.