Síðustu fjögur ár þau hlýjustu frá upphafi mælinga

Íbúar Vínarborgar kæla sig í hitabylgjunni í júlí.
Íbúar Vínarborgar kæla sig í hitabylgjunni í júlí. AFP

Vísindamenn við alþjóðleg veðurfræðisamtök (World Weather Attribution) hafa skoðað veðurfarslíkan með sögulegum hitabylgjum og borið saman við hitabylgjuna sem fór um Evrópu í síðasta mánuði. Voru niðurstöðurnar þær að í veðurfarslíkaninu var hitastigið að jafnaði 1,5 til 3 gráðum lægra en hitastigin sem sáust í Evrópu í júlí.

Hitamet féllu hvert á fætur öðru í Belgíu, Hollandi, Bretlandi, Frakklandi og víðar. Svipuð hitabylgja gekk einnig yfir í júní og var sá júnímánuður sá heitasti síðan mælingar hófust í Evrópu.

„Á öllum svæðum hefði álíka viðburður og við sáum verið 1,5 til 3 gráðum svalari í óbreyttu loftslagi,“ segja samtökin. Segja þau mismuninn vera „í samræmi við fleiri tilvik heilsuleysis og dauðsfalla.“

Hlýnun jarðar jók einnig líkur á hitabylgjunni í júlí verulega í sumum löndum, miðað við veðurfarslíkanið. Slíkar veðuröfgar í norðurhluta Evrópu, án þeirrar 1 gráðu sem mannkynið hefur bætt við andrúmsloftið frá iðnbyltingu, myndu sjást að meðaltali einu sinni á 1000 ára fresti.

„Hnattræn hlýnun hefur þess vegna haft mikil áhrif í að útskýra slík hitastig,“ segja samtökin.

Hitabylgjan í júní var líklegast orðin fimm sinnum líklegri sökum hnattrænnar hlýnunar og var um það bil 4 gráðum heitari en álíka hitabylgja fyrir árhundraði síðan.

Óvenjulega öfgakenndar hitabylgjur hafa farið um Evrópu árin 2003, 2010, 2015, 2017, 2018 og tvisvar sinnum á þessu ári. Fjögur heitustu árin frá upphafi mælinga eru síðustu fjögur ár.

Martha Vogel, loftlagsrannsakandi hjá Tæknistofnun Sviss í Zurich, segir það „svo gott sem vitað“ að hitabygljan í Evrópu 2018 sem olli umfangsmiklum skógareldum, hefði ekki átt sér stað án hnattrænnar hlýnunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert