NATO vill eftir fremsta megni komast hjá nýju vopnakapphlaupi við Rússland, eftir að Bandaríkin drógu sig formlega út úr rúmlega 30 ára gömlum kjarnorkusamningi við Rússland.
Bæði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafa kennt Rússum um hrun samningsins.
Stoltenberg segir NATO ætla að „bregðast á þroskaðan og ábyrgan hátt við þeirri miklu hættu sem öryggi bandalagsins stafar af 9M729-stýriflaugum Rússa“.
Segir hann NATO „ekki vilja nýtt vopnakapphlaup,“ og staðfestir að engar fyrirætlanir hafi verið gerðar um að NATO útfæri sams konar eldflaugar í Evrópu.
Samningur Rússlands og Bandaríkjanna um meðaldrægar eldflaugar (INF) var undirritaður af þáverandi Bandaríkjaforseta Ronald Reagan og leiðtoga Sovétríkjanna Mikhaíl Gorbatsjev árið 1987. Samningurinn bannaði eldflaugar með skotfæri á bilinu 500 til 5.500 kílómetra.
Fyrr á þessu ári sökuðu Bandaríkin og NATO Rússland um að brjóta samninginn með því að útfæra nýja tegund stýriflauga sem Rússar hafa þó neitað. Bandaríkin sögðust hafa sönnunargögn um að Rússar hefðu útfært talsvert magn af 9M729-stýriflaugum og hafa bandamenn Bandaríkjanna í NATO tekið undir ásakanirnar.
„Eingöngu Rússland ber ábyrgð á hnignun samningsins,“ sagði utanríkisráðherra Bandaríkjanna Mike Pompeo í dag.
„Með stuðningi bandamanna okkar í NATO hafa Bandaríkin ákveðið að Rússland hafi efnislega brotið samninginn og hafa þar með fellt niður okkar skyldur undir samningnum.“
Samkvæmt BBC hefur rússneska utanríkisráðuneytið staðfest að samningurinn sé „formlega dauður“.
Í febrúar ákvað Donald Trump Bandaríkjaforseti að draga Bandaríkin út úr samningnum 2. ágúst ef Rússland færi ekki eftir samningnum. Vladimir Pútín Rússlandsforseti lét af skyldum lands síns samkvæmt samningnum fljótlega í kjölfarið.
„Ómetanlegur hemill á kjarnorkustríði hefur glatast,“ sagði aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres.
Stjórnmálaskýrendur óttast að hrun þessa sögulega samnings gæti leitt til annars vopnakapphlaups á milli Bandaríkjanna, Rússlands og Kína.
„Núna þegar samningurinn er úr sögunni munum við sjá þróun og útfærslu nýrra vopna,“ segir Pavel Felgenhauer, rússneskur hernaðargreinandi, við AFP. „Rússland er nú þegar tilbúið.“
Í síðasta mánuði sagði Stoltenberg við BBC að stýriflaugar Rússa, sem hann sagði vera „klárt brot á samningnum“, væru kjarnorkuflaugar, færanlegar, afar erfitt að uppgötva og gætu náð til evrópskra borga á nokkrum mínútum.
„Þetta er alvarlegt. INF-samningurinn hefur verið hornsteinn vopnatakmarkana í áratugi og nú erum við að sjá samninginn fjara út,“ sagði Stoltenberg.