Vilja komast hjá vopnakapphlaupi

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

NATO vill eftir fremsta megni komast hjá nýju vopnakapphlaupi við Rússland, eftir að Bandaríkin drógu sig formlega út úr rúmlega 30 ára gömlum kjarnorkusamningi við Rússland. 

Bæði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafa kennt Rússum um hrun samningsins. 

Stoltenberg segir NATO ætla að „bregðast á þroskaðan og ábyrgan hátt við þeirri miklu hættu sem öryggi bandalagsins stafar af 9M729-stýriflaugum Rússa“.

Segir hann NATO „ekki vilja nýtt vopnakapphlaup,“ og staðfestir að engar fyrirætlanir hafi verið gerðar um að NATO útfæri sams konar eldflaugar í Evrópu. 

Samningur síðan úr kalda stríðinu 

Samn­ing­ur Rúss­lands og Banda­ríkj­anna um meðaldræg­ar eld­flaug­ar (INF) var und­ir­ritaður af þáver­andi Banda­ríkja­for­seta Ronald Reag­an og leiðtoga Sov­ét­ríkj­anna Mik­haíl Gor­bat­sjev árið 1987. Samn­ing­ur­inn bannaði eld­flaug­ar með skot­færi á bil­inu 500 til 5.500 kíló­metra. 

Fyrr á þessu ári sökuðu Banda­rík­in og NATO Rúss­land um að brjóta samn­ing­inn með því að út­færa nýja teg­und stýrif­lauga sem Rúss­ar hafa þó neitað. Banda­rík­in sögðust hafa sönn­un­ar­gögn um að Rúss­ar hefðu út­fært tals­vert magn af 9M729-stýrif­laug­um og hafa banda­menn Banda­ríkj­anna í NATO tekið und­ir ásak­an­irn­ar. 

„Ein­göngu Rúss­land ber ábyrgð á hnign­un samn­ings­ins,“ sagði ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­anna Mike Pom­peo í dag. 

„Með stuðningi banda­manna okk­ar í NATO hafa Banda­rík­in ákveðið að Rúss­land hafi efn­is­lega brotið samn­ing­inn og hafa þar með fellt niður okk­ar skyld­ur und­ir samn­ingn­um.“

Vopnakapp­hlaup Banda­ríkj­anna, Kína og Rúss­lands

Sam­kvæmt BBC hef­ur rúss­neska ut­an­rík­is­ráðuneytið staðfest að samn­ing­ur­inn sé „form­lega dauður“. 

Í fe­brú­ar ákvað Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti að draga Banda­rík­in út úr samn­ingn­um 2. ág­úst ef Rúss­land færi ekki eft­ir samn­ing­num. Vla­dimir Pút­ín Rúss­lands­for­seti lét af skyld­um lands síns samkvæmt samn­ingn­um fljót­lega í kjöl­farið. 

„Ómet­an­leg­ur hem­ill á kjarn­orku­stríði hef­ur glat­ast,“ sagði aðal­rit­ari Sam­einuðu þjóðanna, Ant­onio Guter­res. 

Stjórn­mála­skýrend­ur ótt­ast að hrun þessa sögu­lega samn­ings gæti leitt til ann­ars vopnakapp­hlaups á milli Banda­ríkj­anna, Rúss­lands og Kína.

„Núna þegar samn­ing­ur­inn er úr sög­unni mun­um við sjá þróun og út­færslu nýrra vopna,“ seg­ir Pavel Fel­genhau­er, rúss­nesk­ur hernaðargrein­andi, við AFP. „Rúss­land er nú þegar til­búið.“ 

Í síðasta mánuði sagði Stolten­berg við BBC að stýrif­laug­ar Rússa, sem hann sagði vera „klárt brot á samn­ingn­um“, væru kjarn­orkuflaugar, fær­an­leg­ar, afar erfitt að upp­götva og gætu náð til evr­ópskra borga á nokkr­um mín­út­um. 

„Þetta er al­var­legt. INF-samn­ing­ur­inn hef­ur verið horn­steinn vopna­tak­mark­ana í ára­tugi og nú erum við að sjá samn­ing­inn fjara út,“ sagði Stolten­berg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert