Lögreglan í Moskvu handtók í dag hundruð manns sem tóku þátt í mótmælagöngu í miðborginni. Líkt og síðasta laugardag kom fólkið saman til að krefjast frjálsra kosninga. Yfirvöld segja hins vegar um ólögleg mótmæli að ræða.
Yfir 1.000 manns voru handtekinn í mótmælunum síðasta laugardag og hafa yfir 600 manns verið handtekinn það sem af er degi.
Yfirvöld hafa þá aukið þrýsting á Alexei Navalny, einn leiðtoga stjórnarandstöðunnar, með því að hefja rannsókn á samtökum hans sem unnið hafa gegn spillingu.
Stórir hópar fólks gengu í dag um breiðgötur Moskvu í svo nefndu „mótmælarölti“ vegna synjunar yfirvalda á að leyfa stjórnarandstæðingum og óflokksbundnum að gefa kost á sér í borgarstjórnarkosningum í september.
Flestir þeirra frambjóðenda eru nú í haldi lögreglu eftir mótmælin síðustu helgi, m.a Navalny.
Mikill fjöldi óeirðalögreglumanna tóku þátt í aðgerðum lögreglu i dag og þó nokkuð var um að verslanir og veitingastaðir hefðu lokað. Járngrindum var víða komið upp og gsm-samband lá niðri í nokkrar klukkustundir.
Lyubov Sobol, einn leiðtoga rússnesku stjórnarandstöðunnar, var meðal þeirra rúmlega 300 einstaklinga sem voru handteknir í dag. Hún var í leigubíl á leið til að taka þátt í mótmælunum þegar lögreglumenn drógu hana út úr bílnum og inn í svartan lögreglubíl.
Rússnesk yfirvöld segja 30 manns af 350 sem tekið hafi þátt í mótmælum dagsins, hafa verið handtekna. Samtökin OVD-Info sem fylgjast með handtökum vegna pólitískra mótmæla í Rússlandi segja hins vegar mun fleiri en þann fjölda sem yfirvöld segja hafa tekið þátt í mótmælunum hafa verið handtekin.