Kína ætti að vera með í nýjum samningi

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir Kínverja og Rússa mjög spennta fyrir …
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir Kínverja og Rússa mjög spennta fyrir því að ræða um nýtt kjarnorkusamkomulag. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í gær að hann vildi setjast að borðinu með bæði Kínverjum og Rússum til þess að ræða nýjan samning um meðferð kjarnorkuvopna. Hann sagðist hafa rætt þessi mál við fulltrúa beggja ríkja og að þau væru „mjög, mjög spennt“ fyrir þessu.

Bandaríkjamenn drógu sig í gær formlega frá samningi við Rússland um meðaldrægar eldflaugar, sem lagði blátt bann við þróun flugskeyta sem borið geta kjarnavopn til skotmarka í 500-5.500 kílómetra fjarlægð. Bandarísk stjórnvöld og höfðu sakað Rússa um að brjóta gegn samkomulaginu með vopnaþróun sinni á undanförnum árum.

Samkvæmt frétt BBC fór Trump að tala um Kína þegar hann var spurður að því hvernig ætti, nú þegar INF-samningurinn svokallaði er ei lengur í gildi, að koma í veg fyrir vopnakapphlaup.

Hann sagði að Bandaríkjastjórn hefði þegar rætt við Rússa um nýjan kjarnorkusamning, sem fæli í sér að bæði ríki myndu losa sig við eitthvað að þeim kjarnavopnum sem þau ráða yfir.

„Við myndum án efa vilja hafa Kínverja með á einhverjum tímapunkti,“ sagði forsetinn við blaðamenn á grasflötinni fyrir utan Hvíta húsið og sagði að það yrði frábært fyrir heiminn, ef svo færi.

Mörg þúsund kjarnorkusprengjur til

Rússar og Bandaríkjamenn eru í sérflokki er kemur að kjarnavopnaeign. Í tölum frá bandarískum fræðimönnum sem BBC vitnar segir að báðar þjóðir eigi yfir 6.000 kjarnaodda, að öllu meðtöldu.

Frakkar, Kínverjar og Bretar eiga svo á bilinu 200-300 vopn, Pakistanar og Indverjar á bilinu 130-150 hvort ríki, Ísraelar eru sagðir eiga 80 sprengjur og Norður-Kórea er talin ráða yfir 20-30 vopnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert