Synt um götur Óslóar

Maður tekur sér sundsprett um götu í miðborg Óslóar í …
Maður tekur sér sundsprett um götu í miðborg Óslóar í nótt, nokkuð sem sjaldan gefst færi á. Veðurfræðingur sem ræddi við mbl.is í dag segir öfgar í veðurfari aukast með hverju árinu sem líður og segir útilokað að líta fram hjá loftslagsvánni sem svo er nefnd. Ljósmynd/Skjáskot úr myndskeiði sem vegfarandi sendi norskum fjölmiðlum í nótt

Hann var voldugur þrumugnýrinn sem barst íbúum Óslóar í Noregi til eyrna upp úr miðnætti í nótt þegar þrumuveður gekk yfir borgina með öllu því sjónarspili sem slík veður bjóða upp á, leiftrandi eldingum og regni sem lamaði frárennsliskerfi borgarinnar svo gjörsamlega að vegfarendur syntu um götur miðborgarinnar í rúmlega eins metra djúpum hyljum.

Morten Bratli, vaktstjóri slökkviliðisins í Ósló, segir í samtali við dagblaðið VG að hans fólk hafi farið í á annað hundrað útköll í nótt. „Vatn flæddi inn í íbúðir hjá fólki og sums staðar varð umtalsvert tjón á innanstokksmunum. Einhverjir munu þurfa að ræða við tryggingafélögin sín,“ segir Bratli. „Við þurftum að forgangsraða útköllum og fara fyrst í þær aðstæður þar sem fólk var í hættu, næst í röðinni var veraldlegt tjón,“ segir vaktstjórinn að lokum og greinir frá útkalli þar sem eldingu laust niður í íbúðarhús og öllu rafmagni sló út. Íbúa sakaði þó sem betur fer ekki.

Veðuröfgar sem eiga sér fáar hliðstæður

Per Egil Haga, vakthafandi veðurfræðingur á norsku veðurstofunni Meteorologisk institutt, ræddi við mbl.is nú undir kvöld og sagði aðra eins úrkomu sjaldan hafa mælst í Ósló. „Við mældum 27,2 millimetra á Sofienberg og það er mikið skal ég segja þér,“ segir Haga. Hann segir þrumuveðrið hafa færst yfir höfuðborgina frá Randsfjorden í Oppland-fylki, norður af Ósló, þaðan sem það hafi þokast hægt í suðaustur yfir nóttina.

„Við erum farin að sjá veðuröfgar hér í Noregi sem eiga sér fáar hliðstæður síðan tekið var að fylgjast með veðri á fræðilegan hátt,“ segir Haga, „núna mælum við mun meiri úrkomu á skemmri tíma en áður og sjáum á sama tíma hitatölur sem fyrir aðeins örfáum áratugum hefðu verið óhugsandi,“ segir hann enn fremur og vísar til nýsleginna hitameta í fjölda norskra fylkja í sumar og fyrrasumar.

Áhugaljósmyndarinn Lasse Thomasgård tók þessa mynd í nótt út um …
Áhugaljósmyndarinn Lasse Thomasgård tók þessa mynd í nótt út um gluggann á heimili sínu við Bogstadveien, skammt frá miðborg Óslóar, og veitti mbl.is góðfúslegt leyfi sitt til að birta hana. Sjónarspilið af svölum þess sem hér skrifar, í Ullern í Vestur-Ósló, var ekkert minna en rafmagnað á öðrum tímanum í nótt. Ljósmynd/Lasse Thomasgård

Þannig að loftslagsváin svokallaða er raunveruleg ógn við vistkerfi jarðarinnar? „Það er mjög erfitt að neita því að við erum núna að ganga í gegnum breytingar sem eiga sér ekki hliðstæðu á þeim tíma sem mælingar hafa staðið, ég held að fáir fræðimenn á þessu sviði neiti því úr því sem komið er,“ segir Haga að skilnaði við mbl.is.

Aftenposten

NRK

Dagbladet

ABC Nyheter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert