Þrír blaðamenn hafa nú verið myrtir á einni viku í Mexíkó. Jorge Ruiz Vazques, blaðamaður hjá El Grafico de Xalapa í Veracruz-ríki var skotinn til bana fyrir helgi, einungis viku áður en hann átti að bera vitni í máli sem snerist um líflátshótanir á hendur honum.
Blaðamaðurinn hafði fullyrt að borgarstjórinn í borginni Actopan, Paulino Domínguez Sánchez, stæði á bak við hótanirnar. Nú er hann látinn og bætist þar með í hóp tveggja annarra blaðamanna, sem hafa fundist látnir á síðustu dögum, en báðir störfuðu þeir í Guerrero-ríki.
Annar þeirra fjallaði aðallega um störf lögreglunnar. Hann fannst látinn í skotti bifreiðar og bar þess merki að hafa verið pyntaður áður en hann var skotinn til bana.
Nú hafa alls tíu blaðamenn verið myrtir í Mexíkó á þessu ári, samkvæmt þarlendum baráttuhópi fyrir öryggi blaðamanna.
En fólk úr öðrum starfsstéttum er einnig myrt. Fjöldi morða á fyrri hluta ársins hefur aldrei verið jafn mikill og núna, samkvæmt opinberum tölum. Yfir 35.000 morð voru framin í Mexíkó í fyrra, samkvæmt umfjöllun Wall Street Journal.
Í frétt Guardian segir að ofbeldisaldan undirstriki þá miklu áskorun sem forseti landsins Andreas Manuel Lopez Obrador standi frammi fyrir, en er hann tók við embætti í desember hét hann því að stemma stigu við ofbeldi í ríkinu.